Stjórnmál í Japan hafa jafnan þótt í leiðinlegri kantinum. Undanfarnir mánuðir eru alger undantekning. Hinn hárprúði Kuizomi, sem komst í vor til valda í óþökk helstu valdablokka samfélagsins, hefur heldur betur hleypt nýju blóði í pólitíkina.
Á örskömmum tíma náði Kuizomi ótrúlegu persónufylgi. Á tímabili fékk hann yfir 80% fylgi í skoðanakönnunum. Í síðustu viku gjörsigraði hann síðan sínar fyrstu kosningar með því að fá 65% þeirra þingsæta sem kosið var um í kosningum til efri deildar þingsins í Japan.
Eftir sigurinn er komið að kaflaskilum hjá Kuizomi. Nú getur hann hætt að einbeita sér að því að afla sér umboðs þjóðarinnar. En í staðinn þarf hann að hefjast handa við að framkvæma stefnu sína. Yfirlýst stefna Kuizomi gengur út á rótækar umbætur í efnahagsmálum, enda ekki seinna vænna. Stórir geirar hagkerfisins, s.s. landbúnaður, byggingariðnaður, bankakerfið og fjölmörg ríkisfyrirtæki, eru gjörsýrðir af verndarstefnu, niðurgreiðslum og pólitískri spillingu.
Kuizomi hefur verið óragur við að vara kjósendur við því að stefna hans muni hafa veruleg óþægindi í för með sér til skamms tíma. Víðtæk markaðsvæðing og einkavæðing er nauðsynleg og engum dylst að slík stefna getur til skamms tíma aukið á niðursveifluna í hagkerfinu. Þar sem hagkerfið er nú þegar í vondum málum er ljóst að rótækar umbætur eru gríðarlega erfiðar frá pólitísku sjónarmiði. Í rauninni er ólíklegt að nauðsynlegar umbætur séu pólitískt gerlegar nema að Kuizomi fái talsverða hjálp frá Seðlabanka Japan í því að auka eftirspurn á meðan hann tekur til á framboshlið hagkerfisins.
Vandinn er að Seðlabanki Japan er í tómi rugli. Þrátt fyrir langvarandi kreppuástand og talsverða verðhjöðnun skirrast seðlabankinn við að dæla nægilegu magni peninga inn í hagkerfið til þess að koma hjólum atvinnulífisins aftur í gang. Bankinn getir að vísu ekki lækkað vexti meira þar sem vextir eru nú þegar komnir niður í núll. En þrátt fyrir það er enginn vandi fyrir bankann að gera meira til þess að auka eftirspurn. Einföld leið til þess er að kaupa ríkisskuldabréf í stórum stíl. Önnur leið væri að kaupa erlendan gjaldeyri í stórum stíl.
Masaru Hayami, seðlabankastjóri Japans, virðist hins vegar vera algjörlega úr takt við raunveruleikann. Hann þjáist enn af óstjórnandi hræðslu við verðbólgu og er því ekki fáanlegur til þess að losa um tauminn. Það er engum blöðum um það að fletta að með þessu er Hayami að vanrækja markmið seðlabankans um verðstöðuleika með vítaverðum hætti. Ritstjórar breska tímaritsins, The Economist, hafa á undanförnum vikum skorað á Kuizomi að víkja Hayami úr embætti af þessum sökum. Eitt af slagorðum Kuizomi í kosningabaráttunni var „umbætur þar sem ekkert er heilagt”.Það er eins gott að hann starfi eftir þessu slagorði hvað seðlabankann varðar.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009