Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var fjallað um hið nýja fullkomna eftirlitsmyndavlélakerfi sem sett hefur verið upp í Leifsstöð. Nokkuð hefur verið rætt um þetta kerfi en það getur þekkt andlit með því að reikna út ákveðin hlutföll í þeim. Þannig er hægt að geyma myndir af fólki í gagnagrunni og kerfið ber þær saman við andlit fólksins sem gengur um stöðina.
Segja má að kerfið sé þannig fullkomnara en mannsaugað að það á auðveldara með að þekkja fólk þótt það sé með einhvers konar dulargerfi. Hins vegar er það ekki óbrigðult. Það getur misst af andlitum sem það á að þekkja og farið mannavillt ef andlitsfall manns er gengur framhjá myndavél er líkt andlitsfalli einhvers í gagnagrunninum. Þannig gæti verið afar óþægilegt að leggjast í ferðalög fyrir mann sem hefur líkt andlitsfall og Osama bin Laden og líklegt að hann myndi verja meiri tíma í fangaklefum en á hótelum. Það hljóta einnig að vera álitshnekkir fyrir íslenskan mann að vera handtekinn af sérsveit lögreglunnar í hvert skipi sem hann kemur heim úr sumarfríi með fjölskyldunni.
Ekki virðist enn vera á hreinu hvaða andlit verða sett inn í kerfið. Í fréttinni var talað um að hugsanlega yrðu það alþjóðlega eftirlýstir glæpamenn, fólk í farbanni og þeir sem eiga í forræðisdeilum. Þeir síðastnefndu til að þeir færu ekki með börn sín úr landi. Líklega má einnig gera ráð fyrir að helstu góðkunningjar lögreglunar verði settir inn í kerfið.
Það sem vakti þó helsta athygli í fréttinni var að rætt hafi verið um að koma samskonar kerfi upp í Reykjavík og tengja við eftirlitsmyndavélar Lögreglunnar. Þannig geta þeir sem líkjast meint hættulegu fólki farið að búast við að vera handteknir á leiðinni útaf McDonalds.
Nú treysti ég mér ekki til að meta hversu stórt hlutfall þeirra sem eiga leið um miðbæinn eru eftirlýstir glæpamenn. En hitt er annað mál að það að tengja svona kerfi við myndavélarnar í miðbænum myndi magna deilurnar um þær um allan helming. Ekki nóg með að fylgst sé með borgurunum til að reyna að ná hugsanlegum glæpum á mynd, heldur yrði kerfið notað til að leita uppi fólk sem gæti hugsanlega framið glæpi. Líklega er þess ekki langt að bíða að hugsanalesarar verði tengdir við myndavélarnar og lögreglan grípi inn í um leið og vegfarendur hugsa eitthvað ljótt.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021