Upp á síðkastið hafa mál komið upp á yfirborðið sem varða hegðun vestrænna starfs- og hermanna á þróunarsvæðum í Afríku. Þessi atvik sýna glöggt hvers konar óleik vestrænar þjóðir geta gert þriðja heims ríkjum með því að senda óstöðuga einstaklinga á þessi svæði, hvort sem um er að ræða til hjálpar- eða eftirlitsstarfa.
Þann 2. júlí 2003 birti Amnesty International skýrslu nr. 45/014/2003 um stöðu mála í Kenýa. Þar koma fram hræðilegar ásakanir á hendur breskum hermönnum en Bretar reka þar æfingabúðir þar sem hópar breskra hermanna koma til æfinga með 6 vikna millibili og fara u.þ.b. 3000 hermenn í gegnum búðirnar á hverju ári. Jafnframt sinna hermennirnir uppbyggingarstarfi á svæðinu.
Í dag hafa komið fram 650 ásakanir um nauðganir breskra hermanna á svæðinu í kringum búðirnar og á svæðum þar sem verkfræðideildir sáu um uppbyggingu. Grunur er um að þessar ásaknir séu einungis toppurinn á ísjakanum. Er talið að brotin hafi byrjað árið 1965 en langflest þeirra hafa átt sér stað á síðustu 20 árum. Í yfir helmingi tilkynntra atvika er um að ræða hópnauðganir. Mest megnis ungum konum var nauðgað, stundum á barnsaldri en einnig hafa verið tilkynnt tilfelli þar sem ungum drengjum var nauðgað.
Flestar árásirnar eiga að hafa átt sér stað þegar konurnar voru að sinna skylduverkum sínum s.s. að gæta dýra og sækja vatn fyrir utan þorpin sem liggja í nágrenni herstöðvarinnar. Skýrsla Amnesty lýsir því þegar fólkið sem býr í kringum stöðina reyndi árangurslaust að ná fram réttlæti og stöðva árásirnar. Konurnar fóru ekki nálægt herstöðinni en það var til lítils. Árásirnar héldu engu að síður áfram, ár eftir ár og enginn gerði neitt.
Þar sem hermennirnir voru einungis á svæðinu í 6 vikur þá virðist vera sem það hafi gengið á milli herdeilda innan breska hersins að svæðið væri e-s konar frísvæði fyrir kynferðisglæpi. Enginn var nokkurn tímann dreginn til ábyrgðar. Þegar kenýska lögreglan kvartaði yfir þessari hegðun til bresku herstjórnarinnar á svæðinu var málinu alltaf stungið undir stól. Það bendir allt til þess að yfirmenn í breska hernum hafi fyrst frétt af þessu árið 1977 en þeir gripu ekki til aðgerða í 26 ár en breska herlögreglan hóf fyrst rannsókn í apríl 2003. Í skýrslu Amnesty kemur fram að margt bendi til þess að rannsóknin sé algjörlega ófullnægjandi.
Það bendir því flest til þess að breskir hermenn hafi í fjöldamörg ár staðið fyrir stórfelldum mannréttindabrotum á þessu svæði en skv. alþjóðasamningum er nauðgun flokkuð sem pynding. Bæði Bretland og Kenýa hafa fullgilt alþjóðasamninga sem banna slíka háttsemi svo sem Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samning um afnám allra mismununar gagnvart konum. Það er alveg með ólíkindum að sjá brot af þessu tagi og þessari stærðargráðu frá vestrænu ríki nú á tímum en síðasta tilkynnta nauðgun á að hafa átt sér stað árið 2002.
Ætli það sé nokkuð hægt fullkomlega að vita hvernig einstaklingar bregðist við ákveðnum aðstæðum fyrr en þeir hafa í raun og veru lent í þeim. Sama hversu mikla menntun og þekkingu menn hafa þá geta þeir alltaf haft einhverjar óeðlilegar hvatir. Hvatir sem vestrænt þjóðfélag nær yfirleitt að bæla en geta brotist út þegar menn yfirgefa vestrænt þjóðfélag með öllum þeim reglum og eftirliti sem í því er. Við verðum að hafa þetta í huga og reyna eftir fremsta megni að sía út skemmdu eplin þegar fulltrúar eru valdir til að sinna mannúðar- og uppbyggingarstarfi á þessum svæðum.
Þetta er einnig mjög gott að hafa í huga þegar manni blöskrar grimmd og villimannsleg hegðun sem viðgengst í átökum fólks í þriðja heims ríkjum. Í kringum okkur eru margir einstaklingar sem myndu hegða sér nákvæmlega eins undir slíkum aðstæðum.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020