Nú standa yfir samningaviðræður vinstri flokkanna í Reykjavík um sameiginlegt framboð í borgarstjórnarkosningum næsta vor. Eins og menn vita þá hefur því verið haldið fram að tilgangur samningaviðræðnanna sé að komast að sameiginlegri niðurstöðu um málefni og stefnu R-listans í komandi kosningum. Það er svosem ekki skrýtið að framboðslistar þurfi að komast að slíkri niðurstöðu en ótrúlegt er að slíkar umræður þurfi að taka mikinn tíma, enda hljóta þeir aðilar, sem nú fara með stjórn borgarinnar að hafa tiltölulega góða hugmynd um þá stefnu sem þeir telja heppilegasta fyrir borgina.
En fæstir eru tilbúnir til þess að kaupa þá útskýringu að málefnin komi til með að ráða örlögum valdabandalags R-listans í Reykjavík. Mun líklegra er að hörð barátta um skipan framboðslista og útdeilingu embætta að loknum kosningum séu hin stóru og erfiðu mál sem vinstri menn í Reykjavík þurfa að ráða fram úr.
Staðan er vissulega flókin. R-listinn kom á sínum tíma fram sem eins konar tákn nýrra tíma á vinstri vængnum og gaf von um að sameining vinstri flokkanna á landsvísu væri á næsta leyti. Þeir draumar dóu náttúrlega fyrir lítið fé og í dag er landslagið í pólitíkinni í stórum dráttum nákvæmlega hið sama og fyrir daga R-listans nema hvað stærsti vinstri flokkurinn, Vinstri grænir, hefur litla sem enga aðkomu að stjórn borgarinnar. R-listinn er, og verður, nefnilega nátengdur Samfylkingunni og sigrar og töp R-listans munu fyrst og fremst hafa áhrif á vöxt og viðgang Samfylkingarinnar, en ekki VG eða Framsóknarflokksins.
Ögmundi Jónassyni og öðrum forráðamönnum VG í Reykjavík er því vandi á höndum. Ef VG tekur ekki þátt í R-lista samstarfinu þá verður þeim væntanlega kennt um tap vinstri manna í borginni og hljóta ákúrur fyrir síngirni. Ef hann tekur þátt í R-listanum og R-listinn vinnur þá hefur VG stuðlað að ennþá sterkari stöðu Samfylkingarinnar, og framtíðarleiðtoganum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, í borginni. Ef hins vegar VG tekur þátt í R-listanum og R-listinn tapar þá situr Samfylkingin í súpunni en VG hefur pálmann í höndunum varðandi áframhaldandi uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.
Því skal spáð hér að samstarf takist um R-listann eftir mikil hrossakaup. R-listinn mun síðan tapa kosningunum næsta vor. Þetta mun þjóna markmiðum VG einkar vel enda verður samstarfinu í Reykjavík umsvifalaust slitið, eftir kosningarnar, og Samfylkingin mun sitja eftir með sárt ennið – en VG geta núið saman höndum og gert sig reiðubúna að koma alvöru flokksvél í gang í höfuðborginni.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021