Eymd fólks í þriðja heiminum er með ólíkindum. Á degi hverjum deyja þúsundir úr auðlæknanlegum sjúkdómum. Enn fleiri þjást af landvarandi vannæringu sem leiðir til verulegs líkamlegs og andlegs skaða fyrir lífstíð. Börn sem þjást af langvarandi vannæringu fyrir fimm ára aldur bíða þess aldrei bætur. Líkamlegur vöxtur þeirra er skertur til muna en sýnu alvarlegra er að vannæringin veldur miklum og varanlegum heilaskemmdum.
Bólusetningar við sjúkdómum eins og berklum, mislingum, barnaveiki og stífkrampa sem draga þúsundir barna til dauða á ári hverju kosta ekki nema örfáar krónur. Og það kostar ekki nema um 20.000 kr. að kosta heilsusamlega næringu barns frá tveggja til sex ára aldurs. Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga er algerlega óskiljanlegt að það sé látið viðgangast að saklausum börnum sem verða fyrir því óláni að fæðast í röngu landi sé leyft að deyja unnvörpum án þess að við, sem lifum í alsnægtum, komum þeim til hjálpar.
Við Íslendingar erum alveg einstaklega ógjafmild þjóð þegar kemur að þróunarhjálp. Árlega gefum við ekki nema um 0,15% af VLF til hjálpar bágstöddum, sem er með því minnsta í OECD. Og það sem meira er þá veitum við þessu fé ekki til ofangreindra hluta sem gæti árlega bjargað þúsundum mannslífa heldur til gæluverkefna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þróunarhjálp okkar Íslendinga felst aðallega í því að hjálpa fólki að læra að veiða fisk í löndum sem eru ekki einu sinni sérstaklega fátæk. Væri ekki nær að veita þessu fé til opinberra stofnana eins og Unicef eða einkarekinna góðagerðarstofnana með góðan orðstír eins og Oxfam.
Raunar er engin ástæða fyrir okkur að treysta á stjórnvöld í þessu sambandi. Hvert og eitt okkar getur lagt sitt að mörkum með því að gefa reglulega til stofnana eins og Oxfam og Unicef. Stjórnvöld ættu að ýta undir slík framlög með því að gera þau frádráttarbær frá skatti. En stjórnvöld geta gengið lengra og gefið fólki val á skattframtalinu sínu um það hversu stór hluti af sköttum þess það vill að renni í þróunaraðstoð. Valið gæti til dæmis verið frá 0-5%. Ég skora á landsmenn að gefa þessum málum meiri gaum og þrýsta á stjórnvöld að leggja sitt að mörkum til þess að þróunaraðstoð okkar sé okkur ekki til háborinnar skammar.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009