Oft hefur verið deilt á stjórnmálamenn fyrir að ræða hlutina ekki málefnalega heldur reyna heldur að snúa út úr málefnunum. Á sama hátt hafa fjölmiðlar verið gagnrýndir fyrir að leita ekki kjarna málsins heldur taka það gott og gilt sem við þá er sagt. Margir telja að þetta sé afleiðin hinnar miklu mötunar sem á sér stað í upplýsingaþjóðfélaginu, fólk hafi ekki tíma til að kryfja málin heldur treysti á aðra til að segja þeim sannleikann. Þetta getur veið vafasamt, gagnrýnin hugsun þarf að vera höfð að leiðarljósi við myndun skoðana. En hvað er gagnrýnin hugsun og hversu almennt eiga lögmál hennar að gilda? Þó hefur nokkuð hefur verið deilt um þetta í gegn um tíðina. Yfirleitt hefur ekki verið deilt um réttmæti gagnrýninnar hugsunar eða eðli hennar sem slíkrar heldur frekar um það hversu víðtæk krafan um gagnrýna hugsun sé.
Páll Skúlason rektor Háskóla Íslands og heimspekingur hefur sett fram eftirfarandi skilgreiningu á gagnrýninni hugsun: ,,Gagnrýnin er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni.“ Þessi skilgreining Páls er mjög góð og þýðir í raun að gagnrýnin hugsun leitar sífellt að nýjum og betri rökum fyrir skoðunum og hugmyndum sínum og er því alltaf að endurskoða þær.
Það kemur kannski mörgum spánskt fyrir sjónir hvers efnis helstu deilur um gagnrýna hugsun hafa verið. Segja má að helstu málsvarar þeirra tveggja sónarmiða sem uppi hafa verið séu þeir William Clifford og William James, en þeir fæddust báðir á fimmta áratug nítjándu aldar.
Skoðun Cliffords var sú að það væri ætíð rangt alls staðar og fyrir hvern mann að trúa einhverju á ófullnægjandi forsendum. Samkvæmt því er krafan um gagnrýna hugsun alger. Óheimilt sé að hafa nokkra skoðun án þess að hún hafi staðist próf gagnrýninnar hugsunar.
Helstu rök Cliffords fyrir trú sinni voru þrenns konar. Í fyrsta lagi að réttmæti sannfæringar byggðist á rótum hennar en ekki innihaldi eða afleiðingu. Þessi rök eru byggð á rökfræðinni sjálfri og segja að hafi maður byggt skoðun á ófullnægjandi forsendum hafi maður gert eitthvað rangt. Í öðru lagi sagði Clifford að öll sannfæring hefði áhrif á athafnir fólks eða ákvarðanir. Þetta var það sem hann kallaði sannfæringarvef, þ.e. að allar sannfæringar okkar hefðu áhrif hver á aðra og því væri óhjákvæmilegt að þær hefðu – þó ekki væri nema að örlitlu leyti – áhrif á gjörðir fólks. Einnig gæti ein veik eða röng skoðun veikt allan skoðanavefinn og því skemmt mikið út frá sér. Þriðja röksemdin sem þyngst vegur hjá Clifford er að engin skoðun sé einkamál. Þetta er dregið af annarri röksemdinni þannig að þar sem allar skoðanir hafi áhrif á gjörðir okkar geti þær ekki verið einkamál þar sem gjörðir okkar snerta í langflestum tilfellum annað fólk með einhverjum hætti. Einnig segir Clifford það skyldu mannanna að endurbæta skoðanavef mannkynsins og því sé það synd gegn mannkyninu að veikja skoðanavefinn þar sem einstök röng skoðun gæti styrkt stoðir fordóma og hleypidóma.
Ýmsir hafa sett sig upp á móti þessarri skoðun Cliffords og sett fram rök gegn henni. Frægust og veigamest eru þau sem William James setti fram. Rök hans voru tvíþætt. Annars vegar að það væri allt of mikið verk fyrir einstakling að nota aðferðafræði Cliffords við skoðanamyndun. Það kallaði á svo mikla sérhæfingu í svo mörgum greinum að viðkomandi gæti engu öðru áorkað um ævina en að hafa réttmætar skoðanir, ef það væri þá mögulegt yfir höfuð. Hin meginröksemd James var að í ýmsum málum ætti gagnrýnin hugsun ekki vel við. Til dæmis væru ást, trúmál og stjórnmál þannig að erfitt væri að vera hlutlaus þangað til hin rétta skoðun væri fundin auk þess hve erfitt eða ómögulegt væri að finna þessa einu réttu skoðun í svo tilfinningalegum málaflokkum. Í þessum efnum sagði James að best væri að láta tilfinningu ráða ferðinni og óskhyggju fremur en rök.
Segja má að andsvar Cliffords gegn James séu tiltölulega einföld. Gegn fyrri röksemd James um tímaskort til að kanna hverja skoðun ofan í kjölinn segir Clifford að ef ekki sé tími til að meta sannfæringu sé enginn tími til að trúa. Við eigum að vera hlutlaus um það sem við erum ekki dómbær á. Páll Skúlason segir þessu til stuðnings að ef við höfum tamið okkur að vega og meta hlutina í anda gagnrýninnar hugsunar séu allar líkur á því að við bregðumst rétt við og myndum okkur nánast umhugsunarlaust rétta skoðun á ástandinu og hvað gera skuli í hverju tilviki. Líklegast er að Clifford hafi í upphafi byggt skoðun sína – að einhverju leyti – á því að maðurinn er skeikull og því sé þörf á þessarri aðferðafræði. Þess vegna ætti skoðun Páls ekki að standast aðferðafræði Cliffords sem segir að allar skoðanir þurfi að kanna, auk þess stenst þetta ekki skilgreiningu Páls sjálfs á gagnrýninni hugsun. Þar sem við erum skeikul verðum við að vanda okkur við skoðanamyndun en ekki treysta á brjóstvitið að neinu leyti. Að sjálfsögðu á Páll við að við öðlumst þjálfun í gagnrýninni hugsun en hún gerir okkur ekki óskeikul. Líklega eru margir þeirra sem við teljum vera s.k. ,,besserwissera” að treysta um of á reynslu sína við myndun réttra skoðana.
Sem svar við seinni rökum James um ást, trú og stjórnmál kemur sú skoðun Páls Skúlasonar að hvergi sé meiri þörf á gagnrýninni hugsun en þar sem tilfinningar spila inn í. Þær stofni skynsemi manna í hættu og því sé gagnrýnin hugsun besta tækið til að halda sér niðri á jörðini. Þessu hljóta flestir þó að vera ósammála þegar kemur að ást og trúmálum.
Af þessu virðist ljóst að helsti munur á skoðunum Clifford og James er sá að Clifford er andvígur tillfinningalegum ákvörðunum en James er hlynntur þeim. Páll Skúlason virðist blása á þennan mun og segja að einnig séu til ígrundaðar og vel rökstuddar tilfinningar. Minn skilningur á tilfinningum er sá að þær séu einmitt órökstuddar skoðanir því ef einstaklingur hefur fundið ástæður og rætur fyrir tilfinningu sem reynast réttmætar, þá hlýtur sú tilfinning að vera orðin að skoðun.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021