Ríkisstjórnin hefur látið undan þrýstingi og dregið til baka eða „mildað“ frestun Héðinsfjarðarganga. Er nú gert ráð fyrir því að hafist verði handa árið 2006 og gangagerðinni flýtt. Ef pistlahöfundi skjátlast ekki mun þessi eftirgjöf ríkisstjórnarinnar þýða að rúmlega sex milljarða gangagerð nær hámarki á svipuðum tíma og framkvæmdir fyrir austan eru sem mestar við Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði. Líta mátti á frestun gangagerðarinnar sem ákveðna prófraun á ríkisstjórnina; hvort hún þyrði að taka erfiðar og umdeildar ákvarðanir samhliða stórframkvæmdum til að hafa bönd á vaxtastigi og verðbólgu. Stjórnin virtist á tímabili ætla að standast þá prófraun, að minnsta kosti að hluta til, með frestun ganganna en nú hefur það sýnt sig að ekki þarf nema lítinn þrýstihóp til að afvegleiða efnahagsstefnu stjórnarinnar. Því er ekki úr vegi að spyrja: Hvað verður þá um skattalækkanirnar?
Héðinsfjarðargöng sem slík eru án efa mikil samgöngubót fyrir íbúa Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Norðurlands í heild sinni, þó að setja verði spurningamerki við umfang hennar og samspil við framtíðarstefnumótun í byggðamálum. En að ætla að ráðast í svo umfangsmikla gangagerð á sama tíma og framkvæmdir eru fyrir austan í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði, hvað þá á mesta framkvæmdatímanum, er að öllum líkindum glapræði. Þensla í byggingariðnaði mun hafa í för með sér sóun; líkt og tilboðsgerð í Héðinsfjarðargöng gaf vísbendingu um (en öll tilboð í gangnagerðina voru yfir kostnaðaráætlun og það hæsta 50% hærra en kostnaðaráætlun). Hvaða staða verður svo uppi í þessum geira að loknum framkvæmdum fyrir austan og norðan? Fjöldauppsagnir eða fjöldagjaldþrot? Hvaða áhrif mun þessi þensla í byggingargeiranum hafa á húsnæðisverð almennings, sem gæti þegar verið of hátt, þegar skortur verður á vinnuafli til nýbygginga?
Ríkisstjórnin hefur gefið á sér höggstað með „mildun á frestun“ Héðinsfjarðarganga og í hann verður rekið þegar stjórnin ætlar sér að grípa í taumana á öðrum sviðum þegar þensla fer að segja til sín. Það verður ekki auðvelt fyrir stjórnina að draga úr ríkisútjöldum í kjölfar þessa máls – nema e.t.v. á þeim sviðum þar sem ekki eru fyrir skilgreindir hagsmunahópar. Hinn almenni skattgreiðandi er til dæmis óskilgreindur hagsmunahópur sem á sér ekki skilgreindan málsvara. Hinn almenni skattgreiðandi má sín lítils gagnvart fámennum hópi Ólafsfirðinga, Siglfirðinga og framsóknarmanna.
Hinn almenni skattgreiðandi mun því heldur ekki geta barið í borðið þegar skattalækkunum ríkisstjórnarsáttmálans verður „frestað“ sökum þenslu.
Framsóknarmenn hafa að öllum líkindum verið ábyrgir fyrir þessum kollhnísum ríkisstjórnarinnar og virðist þessi 17% flokkur ráða orðið miklu á Íslandi. Hækkun húsnæðislána í 90% með hækkun lánaþaks hefur verið tilkynnt og nú Héðinsfjarðargöng. Þar með er allt svigrúm til skattalækkanna uppurið. Mörgum sjálfstæðismönnum fannst eftirgjöfin nóg í ríkisstjórnarsáttmálanum en nú þykir ýmsum um koll keyra.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009