Hér á Íslandi er ekki mikil hefð fyrir því að fólk lími límmiða með alls kyns boðskap á bílana sína eins og landlægt er í Bandaríkjunum. Þó er eitt slagorð sem bregður fyrir í bílgluggum annað slagið. Það er slagorðið „Smábátar, 3 sinnum meiri atvinna”. Þetta slagorð fær auðvitað hárin til þess að rísa hjá hverjum þeim sem nokkurn skilning hefur á lögmálum markaðsbúskapar.
Frá bæjardyrum hagfræðinnar gæti slagorð trillukarla allt eins verið „Smábátar, 3 sinnum minni framleiðni,” eða „Smábátar, 3 sinnum lægri laun.” Forsvarsmenn smábáta virðast nefnilega ekki átta sig á því að atvinna er alls ekki takmörkuð auðlind. Það er vinnuafl sem er takmörkuð auðlind. Þeim mun færri ársverk sem við Íslendingar þurfum að nota við að veiða kvótann þeim mun fleiri ársverk er unnt að nota í að framleiða annars konar vörur og þjónustu.
En trillukarlar eru ekki einir um þessa yfirsjón. (Varla færu þeir að nota þetta slagorð nema að þeir héldu að þjóðin hefði samúð með því.) Stór hluti fólks er iðulega andvígt hagræðingu á þeirri forsendu að við hagræðinguna tapist störf. Það er vitaskuld haldið sömu villutrú og trillukarlarnir. Villutrú sem ég nefndi eitt sinn ánauð tækniframfara . Miklu nær væri að segja að við hagræðinguna losnaði um vinnuafl og líta á hana sem tækifæri þjóðfélagsins til þess að búa eitthvað til sem áður var ekki hægt að búa til þar sem allt vinnnuaflið var bundið við framleiðslu nauðsynlegri hluta.
Ég legg því til að forsvarsmenn smábáta skipti um slagorð. Smábátar hafa margt til síns ágætis og því ætti ekki að vera erfitt að búa til gott slagorð. Það gæti t.d. lagt áherslu á hversu umhverfisvænar veiðar smábáta eru eða hversu gott hráefni þeir búa til.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009