Árið 2000 var jafnréttisátak Háskóla Íslands sett af stað. Markmið þess var að hvetja konur til forystu og jafna námsval kynjanna. Aðaláhersluatriði átaksins varðandi jafnara námsval kynjanna var að auka hlut kvenna í verkfræði og raunvísindum. Í kjölfarið á því var ráðist í sérstakar auglýsingaherferðir. Lítill hluti verkefnisins fór svo í að auka hlut karla í hjúkrunarfræðideild en síðasta vor önnur auglýsingaherferð sett af stað með það að markmiði. Í dag er það svo að konur eru í miklum meirihluta í öllum deildum skólans nema verkfræðideild.
Síðasta haust lét jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands hafa það eftir sér í fjölmiðlum að jafnvel þyrfti að gefa konum kost á því að sækja auðveldari stærðfræðikúrsa í verkfræðideildinni, til að gera námið þeim aðgengilegra. Í kjölfarið upphófust mikil mótmæli frá kvennemendum við verk-og raunvísindadeildir HÍ, þar sem þeim þótti þessi ummæli gera lítið úr námsgetu sinni.
Þegar fólk ræðir um námshæfileika barna er oft talað um að strákar séu að jafnaði betri í raunvísindum en stelpur og að stelpur séu betri í tungumálum og félagsvísindum en strákar. En á þetta við rök að styðjast? Eru konur færri í verkfræði vegna þess að stelpur eru yfirleitt verri í stærðfræði en strákar? Og eru færri karlar félagsvísindum vegna þess að strákar eru yfirleitt verri á því sviði en stelpur? Eða kemur greind málinu ekkert við?
Greindarhugtakið er marglaga hugtak sem felur í sér margskonar vitræna hæfileika. Þessir hæfileikar snúa að munnlegri, rýmdar og magns hugsun. Samkvæmt sálarfræðinni er greind það sem mælist á tilteknum prófum sem kallast greindarpróf. Þau hafa reynst hafa ákveðið forspárgildi um tiltekna eiginleika manna sem hafa til dæmis áhrif á framtíð þeirra. Greindarpróf hafa sýnt meðal annars þó nokkra fylgni við almennan námsárangur eða gengi í skóla.
Þegar rannsaka hefur átt hvort einhver munur er á kynjunum varðandi greind þeirra þá er oft notast við stöðluð greindarpróf. Niðurstöður slíkra rannsókna virðast benda til þess að kynjamunur sé til staðar í vitsmunagetu einstaklinga. Strákar hafa þannig oftast komið betur út úr slíkum prófum að jafnaði heldur en stelpur. Það er hins vegar athyglisvert að þessar niðurstöður virðast ekki skila sér í námsárangri einstaklinganna. Stelpur virðast ná betri einkunnum í skóla en strákar. Þegar niðurstöður samræmdra prófa á Íslandi undanfarin ár eru skoðaðar kemur í ljós að algengara er að stelpur fái háar einkunnir í öllum greinum en strákar og hlutfall miðlungseinkunna eru einnig algengari meðal stelpna. Þá var það fréttaefni nú fyrir stuttu að stelpum gekk töluvert betur en strákum á samræmdu prófi í stærðfræði í vor.
Það er því ekki samræmi á milli niðurstaðna úr greindarprófum og námsárangurs kynjanna. Ástæður þessa geta verið margvíslegar. Hægt er að nota bæði greindarpróf og einkunnir úr skóla sem mælikvarða á greind einstaklinga og því ljóst að ekki er hægt að alhæfa út frá niðurstöðum hvors um sig. Mögulegt er að greindarpróf ofmeti kunnáttu stráka og vanmeti kunnáttu stelpna. Þá er það einnig mögulegt að ástæða þess að stelpur fá hærri einkunnir en strákar sé vegna þess að þær séu einfaldlega iðnari og samviskusamari en þeir; ekki endilega greindari.
Hverjar svo sem ástæðurnar eru á þessu misræmi milli mælikvarða þá er það ljóst að ekki er hægt að alhæfa út frá þeim um það hvort kynið er greindara eða hæfara til að læra ákveðin fræði.
Kynjamunur er vafalaust til staðar á hinum ýmsum sviðum. Líklega er það hins vegar svo að munurinn innan kynjahópanna er oftar meiri en á milli hópanna, sér í lagi þegar vitsmunageta eða greind einstaklinganna er skoðuð.
Hver er þá ástæða þess að konur sækja síður í verkfræði en karlar og karlar sækja síður í félagsfræði en konur? Líklega er þetta frekar spurning um áhuga einstaklinganna og þær staðalmyndir sem þjóðfélagið viðheldur, en ekki greind þeirra.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006