Ef hægt er að tala um að stjórnmálaflokkar hafi hvatir, þá verður að segja að breski Íhaldsflokkurinn er haldinn sjálfseyðingarhvöt á háu stigi. Mér er það til efs að Íhaldsmenn á Bretlandi hafi stigið eitt gæfuspor síðastliðinn áratug og ef marka má baráttuna um leiðtogasætið nú, þá verður ekki annað séð en að þar á bæ sitji menn enn við sinn keip. Eins og kunnugt er, þá berjast þeir Iain Duncan-Smith og Kenneth Clark um forystuhlutverkið. Slagurinn á milli þeirra stefnir í nokkurs konar allsherjar uppgjör innan flokksins – löngu tímabært uppgjör, myndu sumir kannski segja.
Rúmlega 300.000 flokksmenn í Íhaldsflokknum munu greiða atkvæði í leiðtogakjörinu og telja flestir fréttaskýrendur að mjótt verði á mununum. Duncan-Smith er auðvitað með pólitískt heilbrigðisvottorð frá Margréti Thatcher og William Hague uppá vasann, en Clarke nýtur stuðnings Johns Majors og þeirra áhrifamanna innan Íhaldsflokksins sem hallir eru undir þátttöku Breta í starfi Evrópusambandsins. Afstaðan til ESB hefur einmitt verið mesta bitbein Íhaldsmanna undanfarin áratug – og jafnvel lengur – og telja sumir að nú sé komið að ögurstundu – frá og með 12. september muni ljóst vera hvert Íhaldsflokkurinn stefnir í þessum málum og hann geti á ný tekið orðið raunverulegt afl í breskum stjórnmálum.
En skýringar á niðurlægingargögnu breskra Íhaldsmanna síðustu árin er ekki einungis að finna í mismunandi afstöðu til ESB. Halda menn kannski að ekki fyrirfinnist mismunandi skoðanir innan breska Verkmannaflokksins á ýmsum grundvallarmálum? Og af hverju hefur ágreiningar innan hans ekki áhrif á tiltrú kjósenda? Auðvitað er málefnalegur ágreiningur innan allra stjórnmálaflokka sem byggja á lýðræðislegum grunni – skárra væri það nú – og það eitt og sér hefur ekki vond áhrif á tiltrú kjósenda á flokknum. Trúverðugleikinn ræðst hins vegar mjög af framgöngu forystumanna flokksins í innbyrðis deilum og í þeim efnum taka fáir breskum Íhaldsmönnum fram í svikráðum og kjánalátum.
Það verður að teljast afar ólíklegt að 12. september næstkomandi muni marka upphaf nýs tíma sátta og samlyndis innan Íhaldsflokksins. Svo mikið hefur verið sagt og svo mikið hefur verið lagt undir, að sá hluti flokksins sem hallloka fer mun ekki standa sáttur upp frá borðum. Uppgjörið verður því hvorki endanlegt né til þess fallið að auka tiltrú breskra kjósenda á Íhaldsflokknum. Sá tími mun hugsanlega renna upp að fram komi leiðtogaefni sem ekki er markað af þessum innbyrðis deilum og sem hvorugur armurinn getur gert tilkall til. Þangað til það gerist, mun eymdarför Íhaldsmanna halda áfram.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021