Því verður vart neitað að eldsumbrotin sem hófust á Heimaey 23. janúar 1973 eru einhver mestu og hrikalegustu tíðindi sem orðið hafa á Íslandi í seinni tíð. Fimm þúsund íbúar eyjunnar voru fluttir á brott í snatri en innan skamms voru vestmannaeyskir sjómenn byrjaðir að landa fiski í höfninni í Eyjum á ný þótt eldgosið dyndi yfir bænum. Eyjamenn skyldu nú ekki láta eitt lítið sprengigos þvælast of mikið fyrir sér.
Uppbyggingin í Vestmannaeyjum að loknu gosi, og sú bjartsýni og samhugur sem einkenndi það streð, er svo vitaskuld mikil fyrirmynd um hvernig einstaklingar og samfélög geta brugðist á jákvæðan hátt við alvarlegum áföllum. Eyjamenn eru orðlagðir fyrir samstöðu og baráttuþrek sem sannarlega kom að notum við þessar aðstæður. Þá er bæjarbragurinn annálaður fyrir léttleika í lund og smitandi lífsgleði, eins og oft hefur verið áberandi í leikjum íþróttaliða Vestmannaeyinga – og að sjálfsögðu á þjóðhátíð.
Eyjaskáldin, með þá Árna úr Eyjum, Ása í Bæ og Oddgeir Kristjánsson, fremsta í flokki, hafa skilið eftir sig mikilsverð framlög til menningar bæði Vestmannaeyja og landsins í heild. Fjölmörg lög þeirra og textar endurspegla á óviðjafnanlegan hátt þessa lífsgleði og samheldni.
Textar Ása í Bæ eru margir hverjir einstakir. Eins og þeir, sem hafa búið í Eyjum vita, þá bera Eyjamenn mikla virðingu fyrir bæði náttúruöflunum og mannfólkinu. Sjómenn hafa í aldaraðir sótt gjöful fiskimið í kringum Vestmannaeyjar með ærnum tilkostnaði og mikilli áhættu. Andrúmsloftið sem ríkir í þannig samfélögum er gjarnan fölskvalausara en íbúar stórborga eiga að venjast. Hin raunverulegu viðfangsefni eru nógu stór til þess að fólk þurfi ekki að hamast við að skapa sér vandamál sjálft.
Textarnir hans Ása eru bæði ljúfir og fallegir. Þar er að finna augljósa viðkvæmni gagnvart örlögum mannanna en jafnframt æðruleysi gagnvart hinum harða raunveruleika. Virðing fyrir náttúrunni er einnig ríkjandi, og kannski ekki skrýtið þar sem Vestmannaeyjar eru að margra mati, þ.á.m. mínu, einhver allra fallegasti staður í heimi.
Ljóðið sem vísað er til í titli pistilsins hefst á þessu erindi:
Hún rís úr sumarsænum
í silkimjúkum blænum
með fjöll í feldi grænum
mín fagra Heimaey.
Við lífsins fögnuð fundum
á fyrstu bernskustundum
er sólin hló á sundum
og sigldu himinfley.
og síðar segir:
Og enn þeir fiskinn fanga
við Flúðir, Svið og Dranga,
þó stormur strjúki vanga
það stælir karlmannslund.
Lag Oddgeirs Kristjánsson er einnig ákaflega fallegt og á vel við þennan stórgóða texta.
Annar frægur texti eftir Ása í Bæ hefst svona:
Við brimsorfna kletta
bárurnar skvetta
hvítfextum öldum
húmdökkum kvöldum,
sjómanninn laða og seiða.
Skipstjórar kalla, skipanir gjalla,
vélarnar emja, æpa og lemja,
á haf skal nú haldið til veiða.
Þessi texti hefur óvenjulega þétta hrynjandi og enn og aftur er virðing fyrir náttúru og manni augljós.
Fæstir sem hafa búið í Vestmannaeyjum geta nokkru sinni slitið tilfinningatengsl við staðinn. Svo á a.m.k. sannarlega við um mig – eða eins og vinur minn sagði eitt sinn við mig “You can take the kid of the island, but you can´t take the island of the kid.”
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021