Á síðustu tíu árum eða svo hefur stærstur hluti af pólitískri orku stjórnvalda farið í að koma skikki á efnahagsstjórn þjóðarinnar. Árangurinn hefur verið gríðarlegur. Ríkisfjármálum hefur verið snúið til betri vegar. Vextir, gengi og fjármagnsflutningar hafa verið gefnir frjálsir. Fjölmörg ríkisfyrirtæki hafa verið einkavædd. Löggjöf um fjármálamarkaði og Seðlabankann hefur verið endurnýjuð, og margt fleira.
Næstu skrefin á þessari braut virðast nokkuð augljós. Bankarnir verða einkavæddir. Landsíminn verður einkavæddur. Raforkugeirinn verður markaðsvæddur. Og hver veit nema ÁTVR og RUV fylgi í kjölfarið. Þetta eru vitaskuld mikilvæg mál en eftir allt það sem á undan er gengið virðast þau svo óumflýjanleg að það tekur því varla að velta þeim fyrir sér.
Tveir risavaxnir málaflokkar hafa þvi miður algerlega farið varhluta af frjálsræðisþróun síðustu ára: heilbrigðismál og menntamál. Á næstu árum hlýtur að koma að því að þessir málaflokkar færist í auknum mæli inn í hringiðu pólitískrar umræðu.
Sem betur fer búum við Íslendingar við tiltölulega góð kerfi á báðum þessum sviðum, einkum þó á sviði heilbrigðismála. Það er kannski þess vegna sem lítil umræða hefur hingað til farið fram um umbætur á þessum sviðum. Heilbrigðiskerfið og menntakerfið á Íslandi eru samt sem áður langt frá því að vera eins góð og mögulegt er. Þess vegna er óskandi að aukið fjör færist í þá lítilfjörlegu umræðu sem verið hefur um þessi mál undanfarin ár.
Alls kyns spurningum er ósvarað. Er skynsamlegt að einkaaðilar taki í auknum mæli að sér rekstur skóla og/eða heilbrigðisstofnana? Í hversu miklum mæli? Hvar á að byrja á slíku? Er skynsamlegt að einstaklingar taki í auknum mæli þátt í að greiða kostnaðinn af þessum kerfum? Hvernig á að greina á milli þeirra hluta sem einstaklingar greiða og þeirra sem ríkið greiðir? Hvernig er unnt að auka þá hvata sem starfsmenn heilbrigðis- og menntastofnana hafa til þess að hagræða án þess að það komi niður á þjónustunni sem er veitt? Í hversu miklum mæli eiga stjórnvöld að ákvarða það námsefni sem kennt er í grunn- og framhaldsskólum? Er núverandi áherslur ákjósanlegar? Væri skynsamlegt að stytta grunn- og framhaldsskólana um eitt til tvö ár? O.sv.fr.o.fr.
Hvað varðar framtíðaskipan heilbrigðis- og menntamála er þessum spurningum og mörgum fleiri í stórum dráttum ósvarað. Heilbrigðis- og menntamál verða án vafa tvö af stærstu málunum sem kynslóðin sem nú er ný skriðin úr námi þarf að takast á við. Það er eins gott að við byrjum að hugsa um þessi mál og ræða þau á frumlegan hátt.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009