Fyrir nokkrum vikum úrskurðaði Samkeppnisstofnun að Kaupás og Bónus mættu ekki ráðstafa meira en 80% af því frystirými sem ætlað er fyrir framstillingar á ísvörum í viðskiptasamningum við Kjörís og Emmessís. Nokkur umræða spannst um þennan úrskurð og sýndist sitt hverjum. Sumir töldu slæmt að hér væri Samkeppnisstofnun enn á ný að hefta frelsi fyrirtækja til þess að stunda sín viðskipti eins og þeim sýnist. Aðrir töldu að hér væri Samkeppnisstofnun að sinna því hlutverki sínu að tryggja öfluga samkeppni neytendum til hagsbóta.
Það sem er ef til vill athyglisverðast við þetta mál er einfaldlega það að sú staða skuli á annað borð hafa komið upp á Íslandi að Kjörís og Emmessís hafi eins sterka stöðu á ísmarkaði og raun ber vitni. Það þarf varla að taka það fram að erlendis selst Kjörís og Emmessís nánast ekki neitt. Enda eru ísarnir sem þessi fyrirtæki framleiða ekkert sérlega góðir í alþjóðlegum samanburði. Þar hafa ísar á borð við Ben & Jerry’s og Haagen-Daas vinninginn. (Að mati undirritaðs og flestra sem hann hefur rætt þetta mál við.)
Skýringin á velgengni Kjöríss og Emmessíss er ef til vill sú að háir verndartollar eru lagðir á innfluttan ís. Ben and Jerry’s og Haagen-Daas ísar bera ekki aðeins magntoll upp á 110 kr/kg heldur einnig 30% verðtoll. Þetta þýðir að ef erlendir söluaðilar selja 1 kg af slíkum ísum til Íslands á 100 kr leggst 140 kr tollur á ísinn þannig að íslenskir heildsalar þurfa að greiða 240 kr/kg fyrir hann.
Þessir háu tollar gera það að verkum að hálfur líter af Ben and Jerry’s ís kostar u.þ.b. 750 kr út úr búð í Reykjavík. Í Bandaríkjunum kostar þessi sami ís rétt rúmar 200 kr. Til samanburðar kosta 2 lítrar (þ.e. fjórum sinnum meira magn) af hinum verndaða Mjúkís einnig um 750 kr.
Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum hafa litlir hagsmunir þröngs hóps framleiðenda verið teknir fram yfir mun stærri hagsmuni neytenda. Tollar á ís er fáránleg tímaskekkja sem ætti að afnema hið fyrsta.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009