Í síðustu viku ógilti hæstiréttur Bandaríkjanna lög sem bönnuðu samræði milli karlmanna á heimilum þeirra. Málið hefur vakið mikla athygli og umræðu í Bandaríkjunum. Hjónaband og staðfest samvist samkynhneigðra er víða um heim í skoðun hjá löggjöfum og í Bandaríkjunum magnaðist umræðan um réttindi samkynhneigðra verulega í kjölfar úrskurðarins.
Í vor lögðu þrír þingmenn repúblikana og þrír þingmenn demókrata sameiginlega fram tillögu í bandaríska þinginu um viðbót við stjórnarskrá Bandaríkjanna sem bannar hjónabönd og lögformlega staðfestingu á sambúð samkynhneigðra. Tillagan er nú til umræðu í nefndum þingsins og hefur ekki verið borin upp til atkvæða, en breytingar á stjórnarskrá verður að samþykkja með 2/3 hlutum atkvæða. Í viðtali á ABC stjónvarpsstöðinni sagði Bill Frost, en hann er leiðtogi meirihluta repúblikana í öldungadeildinni, að hann styddi tillöguna.
Nú eru aðeins tvö ríki, Holland og Belgía, sem heimila hjónabönd samkynhneigðra. Búist er við að Kanadamenn sláist í hópinn á næstunni, frumvarp þess efnis verður bráðlega lagt fram í þinginu þar í landi. Nokkur lönd og einstaka fylki Bandaríkjanna leyfa samkynhneigðum að staðfesta sambúð sína og öðlast þannig a.m.k. hluta af þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.
Fyrr í þessum mánuði lögðu nokkrir öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum fram frumvarp þess efnis að makar samkynhneigðara opinberra starfsmanna hafi sömu réttindi og makar af gagnstæðu kyni þegar kemur að tryggingum, aðgengi að heilbrigðiskerfinu og fleiri þáttum. Meðal þeirra voru Hillary Clinton, Joseph Lieberman og John Kerry.
Í dag mun breska ríkisstjórnin kynna tillögur sínar um að veita samkynhneigðum öll réttindi sem gagnkynhneigt sambýlisfólk hefur haft hingað til. Þannig geta samkynhneigð pör þar staðfest sambúð sína, þótt enn verði einhver bið á að þau megi giftast. Breytingarnar eiga að ná til allra þátta þar sem hingað til hefr gætt ójafnræðis, þ.á.m. laga um erfðafjárskatt og lífeyri.
Á síðasta þingi var samþykkt á Alþingi þingsályktun um að kanna réttarstöðu samkynhneigðra. Þar á meðal samanburð á réttindum gagnkynhneigðs og samkynhneigðs sambýlisfólks, en hingað til, eins og í Bretlandi hafa samkynhneigðir lakari réttindi þegar kemur að erfðum, lífeyri og fleiru.
Þróunin á þessu sviði er yfirleitt jákvæð, þó hægfara sé. Það hlýtur að vera réttur hvers einstaklings að haga lífi sínu eftir eigin höfði, svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Því eru hugmyndir á borð við fyrrnefnda breytingartillögu við stjórnarskra Bandaríkjanna varhugaverðar, því þær ganga þvert á hugmyndir um einstaklingsfrelsi og jafnrétti.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021