Í nýasta hefti The Economist er athyglisverð grein sem fjallar um heilbrigðismál í Bretlandi. Í greininni er meðal annars fjallað um nýlegan úrskurð Evrópudómstólsins. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöður að heilbrigðisþjónusta sé eins og hver önnur þjónusta að því leyti að innan EES gildi frjáls viðskipti með heilbrigðisþjónustu. Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að sjúklingar ættu rétt á því að sækja sér heilbrigðisþjónustu erlendis ef bið eftir þjónustu heima fyrir er óviðunandi.
Nú er ég ekki löglærður en að því er ég kemst næst ætti þessi úrskurður að hafa mjög mikilvæg áhrif á þróun heilbrigðiskerfisins hér á Íslandi. Úrskurðurinn virðist segja að ef biðlistar hér heima eru óviðunandi (sem er vitaskuld háð mati) þá eigi íslenskir sjúklingar rétt á því að sækja sér þjónustu erlendis á kostnað ríksins. Það sem meira er þá virðist úrskurðurinn í rauninni segja að sömu reglur eigi að gilda um greiðslur ríksins fyrir þjónustu við íslenska sjúklinga hvort sem þjónustan er ynnt af hendi á sjúkrahúsum hér heima eða á sjúkrahúsum annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
En þá vaknar eftirfarandi spurning. Ef íslenska ríkið er skuldbundið samkvæmt EES samningnum til þess láta erlend sjúkrahús sitja við sama borð og íslensku ríkisspítalana þegar kemur að því að þjónusta íslenska sjúklinga hvernig getur ríkisstjórnin neitað íslenskum einkaaðilum sem hafa áhuga á því að byggja sjúkrahús hér heima um að þeir sitji einnig við sama borð og íslensku ríkisspítalarnir?
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009