Menn hafa einkum lagt tvær merkingar í það að vera ópólitískur. Annars vegar það að hafa enga skoðun hafa á einu eða neinu, fljóta með straumnum og líkar það vel, án þess að reyna að hafa áhrif á umhverfið. Hins vegar að hafa sínar eigin skoðanir, jafnvel sterkar og hafa áhuga á að breyta umhverfi sínu, en taka ekki afstöðu með neinum stjórnmálaflokki eða skrá sig í hann.
Það eru margir sem hægt er að flokka í síðari hópinn, þá sem hafa skoðanir en eru samt stikkfrí þar sem þeir hafa ekki verið settir á neinn bás og finnst það ekki fínt að vera í stjórnmálaflokki. Fyrir mér hafa stjórnmálaflokkar tvö megin hlutverk. Annars vegar eru þeir tæki til að koma ákveðinni stefnu á framfæri og hins vegar eru þeir vettvangur fyrir fólk til að vinna skoðunum sínum framgang þótt auðvitað sé einnig vel hægt að gera það utan þeirra. Kosningabandalög hafa hins vegar verið vinsæl upp á síðkastið, enda eru þau gerð til þess að einstaklingar og hópar nái í gegnum þau völdum.
Líklega er R-Listinn besta dæmið um svona kosningabandalag í seinni tíð. Fyrir honum fer hin pólitískt óspjallaða borgarstýra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Áður en hún fór í framboð í borginni starfaði hún með hinum þverpólitíska Kvennalista og meðvinstrimönnum í Háskóla Íslands. Hún hefur mikið stært sig af flekkleysi sínu upp á síðkastið og ekkert gefið útá sögusagnir um tengsl við Samfylkinguna eða hugsanlega inngöngu sína þangað, hvað þá í aðra flokka eða samtök. Hún hefur sínar eigin skoðanir utan flokka, þ.e. er á eigin ábyrgð óháð öðrum.
Nú hefur Ingibjörg hefur þegar gefið tóninn fyrir kosningarnar í Reykjavík næsta vor og kosningabaráttuna í vetur. Óvinurinn er eðlilega Sjálfstæðisflokkurinn, enda er það að öllum líkindum eini flokkurinn í framboði gegn kosningabandalagi hennar sjálfrar. Ingibjörg segir að kosningabaráttan verði hörð og sóðaleg og muni helst einkennast af því hvernig ráðherrar sjálfstæðisflokksins muni vinna gegn öllu því góða sem hún og kollegar hennar í meirihluta borgarstjórnar ætla að gera.
Í sjálfu sér er athyglivert að velta fyrir sér hvers vegna það þykir ekki sérstaklega fréttnæmt að borgarstjóri Reykjavíkur saki helming ráðherra ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn hagsmunum helmings landsmanna. Sérstaklega á sama tíma og sumum þykir ,,annarlegt” að fjölmiðlar hafi yfir höfuð fjallað um meint lokaritgerðasvindl varaþingmanns Samfylkingarinnar í Reykjavík. Það eru þó ekki fjölmiðlafræðilegar vangaveltur sem við erum í hér í þetta skiptið.
Síðast í gær hélt borgarstjóri harmþrungna ræðu á fundi borgarstjórnar þar sem þessi samsæriskenning hennar var í aðalhlutverki. Það er náttúrulega eðlilegt að álykta að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilji að þeirra flokkur sigri í kosningum. En að saka ráðherra um að vinna gegn hagsmunum helmings Íslendinga hlýtur að vera nokkuð alvarlegt. Þeir sem velta þessu fyrir sér hljóta að sjá að Ingibjörg ætlar með þessu að fá frítt spil. Nú getur hún sagst vilja gera nánast hvað sem er en geti ekki framkvæmt það þar sem ríkisstjórnin og hinir óheiðarlegu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu að skemma fyrir henni og þar með öllum borgarbúum.
Öllum er ljóst að megnið af fylgi R-Listans er persónufylgi Ingibjargar, enda er hún sterkur leiðtogi. Ef það væri ekki fyrir hana væri fylgi hans líklega svipað og fylgi Samfylkingarinnar, enda er tilgangur þessara tveggja kosninagabandalaga hinn sami, nefnilega að sigra Sjálfstæðisflokkinn. Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera dauðadæmd stjórnmálastefna að vera bara á móti stefnu annars flokks. Sérstaklega þegar um er að ræða jafn breiðan flokk sem inniheldur jafnmikið af ólíkum skoðunum og Sjálfstæðisflokkurinn. Með þessu útspili sínu er Ingibjörg að gera lítið úr sjálfri sér og stefnu kosningabandalags R-Listans. Ef hún vill viðhalda trúverðugleika sínum sem óspjölluð pólitísk mey á hún ekki að beita svona ósmekklegum aðferðum heldur segja kjósendum hvað hún vill gera fyrir þá og hvað hún hefur gert fyrir þá hingað til. Ekki að reyna að finna blóraböggla fyrir því sem hún hefur ekki getað gert og mun ekki gera í framtíðinni.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021