Miklar umræður og skrif hafa spunnist í kringum afskipti lögreglu af mótmælendum á Austurvelli þann 17. júní sl. Vísaði lögreglan nokkrum mótmælendum út af Austurvelli og tók af þeim mótmælaspjöld sem þeir héldu á lofti á meðan forsætisráðherra hélt hátíðarræðu sína. Rétt er að geta þess að mótmælin voru þögul.
Mótmælendurnir hafa haldið því fram að mótmæli þeirra falli undir tjáningarfrelsi og sé því hluti af stjórnarskrárvörðum rétti manna til að tjá skoðanir sínar. Reyndar hafa þeir ekki minnst á 3 mgr. 74. gr. stjórnarskrá sem verndar rétt manna til að koma saman vopnlausir en hún veitir þeim töluverða vernd þrátt fyrir að þeir viti ekki af því.
Lögreglan hefur hins vegar haldið því fram að hún hafi verið í fullum rétti til að grípa þarna inn í til að tryggja allsherjarreglu og almannaheill. Jafnframt nái tjáningarfrelsið ekki yfir mótmæli á öðrum samkundum eða hátíðum en Austuvöllur hafi verið yfirlýst hátíðarsvæði vegna þjóðhátíðardagsins.
Hægt er að taka undir það með fylgismönnum lögreglunnar að tjáningarfrelsið veiti okkur ekki skilyrðislausan rétt til tjáningar á hvaða stað sem er heldur einungis rétt til tjáningar. Þarna var um ræða skipulögð hátíðarhöld vegna þjóðhátíðardagsins og því ekki víst að öll mótmæli hefðu verið heimil. Hins vegar verður að líta raunsætt yfir leiksvið mótmælanna 17. júní. Um var að ræða ógirt svæði sem öllum var veittur aðgangur að inn í miðborginni. Það verður því að teljast afar hæpið að hægt sé að banna þögul mótmæli með þeim rökum að um hátíðarsvæði sé að ræða. Undir því yfirskini væri hægt að banna mótmæli á stórum svæðum og þannig gætu stjórnvöld auðveldlega komið í veg fyrir flest mótmæli.
Þann 28. júlí 1974 voru nokkur ungmenni handtekinn fyrir mótmæli á þjóðhátíð á Þingvöllum. Höfðu þau m.a. hengt tvo borða á efri brún Almannagjár og dreift áróðursbréfum og merkjum meðal hátíðargesta. Í dómi Hæstaréttar nr. 135/1976 var handtaka ungmennanna talin heimil vegna þess að háttsemi þeirra var talin til þess fallin að vekja ólgu og óróa meðal hátíðargesta. Mál þetta er barn síns tíma og héldu t.d. ungmennin því ekki fram að e-r mannréttindi hefðu verið brotin, hvorki tjáningarfrelsið né rétturinn til að koma saman. Það er hins vegar athyglisvert að lögreglan gerði mikið úr mikilvægi hátíðarinnar og að engin mótmæli hefðu verið heimil innan hátíðarsvæðisins. Hæstiréttur tók það ekki til greina.
Þann 16. maí 1997 voru nokkur ungmenni handtekin á Austurvelli vegna mótmæla sem þau viðhöfðu við beina útsendingu bandarískrar sjónvarpsstöðvar á þættinum Good morning America. Höfðu ungmennin borða og fána með sér og hrópuðu ýmiss slagorð meðan á útsendingunni stóð. Í dómum Hæstaréttar nr. 65-70 frá 1999 voru ungmennunum dæmdar bætur vegna ólögmætrar handtöku. Því var hafnað að uggvænt væri um óspektir á almannafæri eða að um væri að ræða meiri truflun en búast mætti við um slíka atburði á almannafæri. Reyndar tekur Hæstiréttur það sérstaklega fram að hér hafi ekki verið um að ræða truflun á skipulögðum mannfundi eða hátíðarhöldum þannig að ekki er hægt að draga afgerandi ályktun frá þessum dómi varðandi mótmæli á hátíðarsvæðum. Aftur á móti er ljóst að það er mjög líklegt að Hæstiréttur muni í framtíðinni sjá í gegnum allar fjarstæðukenndar röksemdafærslur lögreglu sem ganga út á almannaöryggi og miklar líkur á óeirðum.
Það er því ljóst að þær röksemdir sem lögreglan hefur komið með í málinu eiga ekki við styrka stoð að styðjast. Engin sérstök hætta var á óeirðum og ekki er hægt að fela sig á bak við hátíðarsvæðið. Hins vegar liggur það fyrir að mótmælendurnir hafa bæði tjáningarfrelsi og rétt til að safnast saman vopnlausir en þessi tvö réttindi haldast yfirleitt í hendur þegar mótmælendur eru annars vegar. Til að skerða þessi réttindi verður lögreglan að sýna fram á hagsmuni sem vega þyngra en grundvallarmannréttindi mótmælendanna. Það gefur auga leið í þessu tilviki að svo er ekki. Um var að ræða þögul mótmæli á opinberum stað sem röskuðu ekki almannafriði frekar en nokkuð annað hér á landi.
Maður varð þess vegna hálf leiður við að horfa á fulltrúa lögreglunnar í Kastljósinu á síðasta sunnudag lýsa því m.a. yfir að það hafi verið komið urgur í aðra áhorfendur og það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef fylkingunum hefði lostið saman! Enn á ný fékk maður á tilfinninguna að sumir innan lögreglunnar og stjórnsýslunnar upplifi íslenskan veruleika á allt annan hátt en hinn almenni borgarari. Ef lögreglan hefði í raun og veru trúað því að einhver hætta stafaði af mótmælendunum þá hefði hún handtekið þá í stað þess að rífa af þeim skiltin og vísa þeim nokkra metra í burtu. Líklega voru mótmælendurnir ekki handteknir því allir viðstaddir vissu að það myndi aldrei standast lög.
Það er ljóst að mótmæli á þessari uppákomu hafa farið í taugarnar á einhverjum en það réttlætir náttúrlega ekki valdbeitingu. Lögreglan verður alltaf að sýna gott fordæmi með umburðarlyndi og stillingu. Hún verður að þróast með þjóðfélaginu og virða þá dóma sem hafa fallið á þessu sviði.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020