Stýrikerfastríð II

Seinni grein af tveimur um viðskiptastríð í stýrikerfisframleiðslu. Sjá fyrri grein.

http://www.deiglan.com/index.php?itemid=278

Það er óþarfi að rekja framhaldið á baráttunni um einkatölvustýrikerfi. Það þekkja allir. Færri gera sér hins vegar grein fyrir því að nú rúmum tuttugu árum síðar er annað stríð er í uppsiglingu – og í þetta skiptið í handtölvugeira. Átökin eru hafin og leikmenn eru að koma sér fyrir því eftir miklu er að slægjast.

Á síðustu árum hafa handtölvur verið að ryðja sér til rúms, en handtölvur eru samheiti yfir lófatölvur, vasatölvur með lyklaborði, og snjallsíma. Þessi litlu tæki eru arftakar einkatölvunnar og munu að öllum líkindum verða mun algengari en einkatölvur er fram líða stundir. Um þessar mundir eru á bilinu 15-20 milljónir lófatölvur og vasatölvur á markaðnum en með tilkomu snjallsímana, þ.e. samruna síma og lófatölvu, eykst þessi fjöldi upp í 500 milljón tæki eða 1 milljarð tækja á næstu árum. Það er því engin furða að margir hugsi sér gott til glóðarinnar í gerð handtölvustýrikerfa og margir spá því að eitt stýrikerfi verði markaðsráðandi, líkt og í einkatölvugeiranum. Svo virðist sem öll stærstu tæknifyrirtæki heimsins ætli sér að taka þátt í þessum slag annaðhvort í framleiðslu hugbúnaðar eða vélbúnaðar.

Það er kaldhæðni örlagana að það var Apple sem reið á vaðið í gerð handtölvustýrikerfa með Newton lófatölvunni árið 1993. Newton vélin var búin mörgum þeim eiginleikum sem lófatölvur hafa í dag og gat meðal annars lært að þekkja skrift notandans. Þessi eiginleiki hennar virkaði hins vegar ekki sem skyldi og Apple hætti fljótlega framleiðslu vélarinnar vegna ónógrar eftirspurnar. Vélin varð engu að síðar kveikjan að næsta brautryðjanda, Palm lófatölvunni sem þekkt er orðin. Það var Jeff Hawkins sem átti hugmyndina að Palm lófatölvunni. Jeff varð heillaður af Newton vélinni frá Apple en sá að skriftarþekkingarkerfið yrði að vera öflugra ef handtölvur ætti að ná vinsældum. Hann stofnaði því fyrirtæki ásamt Donnu Dubinsky og saman gerðu þau skriftarþekkingarkerfið Graffiti, sem notað er í öllum handtölvum sem keyra PalmOS stýrikerfið. Er þau höfðu lokið við gerð sriftarþekkingarkerfisins voru engar handtölvur á markaðinum nógu hentugar fyrir Graffiti kerfið að mati Jeff Hawkins. Það varð til þess að þau Dubinsky ákváðu að smíða sjálf vélina utan um Graffiti kerfið. Þau fengu loks fjármögnun frá U.S. Robotics, síðar Palm Computing, og hófust handa við hönnun vélarinnar. Afraksturinn kom svo í ljós tveimur árum síðar, eða 1996, er Jeff hafði gengið með viðarbúta í vasanum í tæpt ár til þess að finna út réttu lögunina á tækinu. Vélin fékk nafnið Pilot 1000 og fékk strax góðar viðtökur. Velgengni þeirra varð til þess að stórfyrirtækið 3Com keypti U.S. Robotics og þar með hófst sigurganga Palm Inc og stýrikerfisins PalmOS.

Sama ár og Pilot 1000 vélin kom út kom einnig út fyrsta lófatölvan sem keyrði WindowsCE stýrikerfið. Bill Gates og félagar hans í Microsoft ætluðu sér ekki að sofna á verðinum og smíðuðu smækkaða útgáfu af Windows stýrikerfinu sem þeir kölluðu WindowsCE. Markmið Microsoft var, og er enn, að tryggja stöðu Windows stýrikerfisins í öllum gerðum tölva, allt frá öflugum miðlurum til smárra farsíma. Báðir þessir framleiðendur á handtölvustýrikerfum, Palm og Microsoft, hafa svo samið við ýmsa vélbúnaðarframleiðendur um notkun á stýrikerfunum í ýmsar gerðir handtölva. Hewlett-Packard, Compaq og Casio framleiða bæði lófatölvur og vastölvur fyrir WindowsCE og Symbol, Handspring, IBM og Sony framleiða lófatölvur fyrir PalmOS stýrikerfið. Þessi tvö stýrikerfi keppast um hylli neytenda á lófa- og vasatölvumarkaðinum en þar hefur PalmOs vinninginn en sem komið er með um 70-80% markaðshlutdeild. Þriðja stýrikerfið á markaðinum er EPOC stýrikerfið sem upphaflega er hannað af breska vasatölvuframleiðandanum Psion. Psion hefur framleitt vasatölvur frá árinu 1984 og náð töluverðri útbreiðslu í Evrópu en átt erfitt uppdráttar í Bandaríkjunum.

Psion styrkti stöðu sína töluvert er það stofnaði árið 1998 Symbian fyrirtækið ásamt farsímarisunum Nokia, Motorola og Ericsson. Symbian hefur haldið áfram þróuninni á EPOC stýrikerfinu en með stærri markað í huga. EPOC stýrikerfið er lagskipt stýrikerfi og getur keyrt á lófatölvum, vasatölvum og snjallsímum. Flestir farsímar á markaðinum keyra á lokuðum stýrikerfum í eigu farsímaframleiðandanna sjálfra. Þróun síðustu ára í farsímageiranum hefur hins vegar verið svo ör að farsímaframleiðendur hafa átt erfitt með að halda uppi öflugri hugbúnaðarþróun samhliða vélbúnaðarþróuninni. Því tóku þessir farsímarisar sig til og stofnuðu sameiginlegt fyrirtæki utan um stýrikerfisþróunina, Symbian, er gæti haldið í við markaðinn. Framleiðendurnir gætu þá einbeitt sér að því að keppa í vélbúnaði í stað hugbúnaðar sem oft hefur gert þeim lífið leitt.. Symbian fékk síðar til liðs við sig japanska tæknirisann Matsushita (Panasonic) og saman hafa því eigendur Symbian nær 80% markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Psion virðist því hafa skotið keppinatum sínum í vastölvum ref fyrir rass en lífið er ekki svona einfalt. Symbian hefur tekið sér mun lengri tíma en áætlað var í framleiðslu EPOC stýrikerfisins og í dag er aðeins einn snjallsími kominn í almenna sölu, Nokia Communicator (9210). Eigendur Symbian hafa einnig verið tregir til þess að gefa sína eigin stýrikerfisþróun upp á bátinn, t.d. Nokia, eftir að hafa fjárfest í notendaviðmóti fyrir milljarða króna. Skilaboð frá farsímaframleiðendunum eru einnig misvísandi. Motorola tilkynnti fyrir löngu tilkomu fyrsta lófatölvufarsímans í samvinnu við Psion, snjallsímann Óðinn, sem keyra átti nýja EPOC stýrikerfið. En á sama tíma tilkynnti Motorola einnig tilkomu PalmOS snjallsíma í samvinnu við Palm. Nýlega sögðu þeir svo að þeir hefðu hætt við framleiðslu á Óðni og einnig að ólíklegt væri að einhver ávöxtur yrði af samstarfi þeirra við Palm. Alvarlegir brestir komu svo í Symbian samstarfið er Nokia tilkynnti að þeir hefðu gert samstarfssamning við Palm um notkun á PalmOS stýrikerfinu. Síðar sögðu Nokia menn að ætlunin væri ekki að hætta Symbian samstarfinu heldur að keyra PalmOS notendaviðmótið ofan á EPOC stýrikerfinu – hvað sem það nú þýðir.

Palm og Microsoft hafa fylgst grannt með þróun mála í Symbian samstarfinu og reyna eftir fremsta megni að spilla því. Palm hefur gert sér dælt við eigendur Symbian eins og áður er getið og náði m.a.s. að sannfæra bæði Motorola og Nokia um að fjárfesta í sér rétt fyrir skráningu á markað (á lægra gengi en útboðsgengi). Microsoft hefur einnig verið í herklæðum því nýlega náðu þeir að tæla til sín forstjóra Symbian til þess að markaðsetja WindowsCE sem fyrir farsíma. Það er skiljanlegt að Palm og Microsoft vilji tryggja stýrikerfum sínum sess í farsímum framtíðarinnar því líklegt er að annars deyi þau út. Einn samstarfsaðili Palm, Handspring, stofnað af Jeff Hawkins og Donnu Dubinsky stofnendum Palm Computing, hefur riðið á vaðið því fyrirtækið kom nýverið með PalmOS síma á markaðinn. Handspring selur hinar vinsælu Visor lófatölvur og nú er hægt að kaupa GSM tengingu við vélarnar þannig að þær virka bæði sem lófatölva og farsími. Microsoft hefur einnig tilkynnt farsíma byggðan á Stinger, smækkaðri útgáfu af WindowsCE stýrikerfinu. Microsoft hefur hins vegar ekki náð að sannfæra neinn af farsímarisunum um ágæti Stinger og hefur orðið að semja við Sendo, algjörlega óþekkt fyrirtæki sem stofnað var í ágúst 1999. Sendo er staðsett í Bretlandi og hefur tilkynnt að það muni senda frá sér Z100 snjallsímann síðar á þessu ári byggðan á Stinger stýrikerfinu.

Hvað framtíðin ber í skauti sér í stríðinu um handtölvustýrikerfi er óljóst. Eigendur Symbian segjast vera með mörg EPOC tæki á teikniborðinu og jafnframt að þriðja kynslóð farsíma sé óhugsandi án þess. Palm keppist við að betrumbæta útgáfu sína af PalmOS stýrikerfinu svo það ráði við farsímaþjónustu og hefur nýlega tilkynnt samstarf við Samsung. Microsoft leitar logandi ljósi að samstarfsaðilum og sögusagnir segja þá vera í samningaviðræðum við Mitsubishi. Það sem að gæti sett strik í reikninginn er að samdráttur í efnahagslífinu hefur bitnað harkalega á tæknifyrirtækjum. Mörg þeirra eru að segja upp starfsfólki, draga úr vexti og fresta þróunarverkefnum. Bardaginn um markaðsráðandi handtölvustýrikerfi gæt því dregist á langinn. Því má heldur ekki gleyma að framtíð handtölva með farsímaeiginleikum er að mörgu leyti bundin við aukna flutningsgetu á gögnum. Ólíklegt er að farsímanotendur séu tilbúnir til að borga mikið meira fyrir snjallsíma ef þeir bjóða ekki upp á virðisaukandi þjónustu sem oft krefst hraða í gagnaflutningum. Þróun á handtölvustýrikerfum gæti því allt eins haldist í hendur við GPRS og 3G væðingu á núverandi farsímakerfum. Höfundur þessarar greinar hefur lengi verið á þeirri skoðun að næstu kynslóðir farsíma eigi lengra í land en haldið er fram. Líklegt sé því að framleiðendur handtölvustýrikerfa geti borist á banaspjótum í nokkur ár í viðbót.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)