Nú segja gárungarnir að glitti í gulltennur og annað sé góðæri í vændum eftir stutt samdráttarskeið. Innflutningur á nýum bílum hefur aukist um helming á fyrstu fjórum mánuðum ársins, sala á heimilistækjum hefur aukist um 25-30% og fjármögnunarfyrirtækin eru farin að auglýsa af krafti. Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun eru komnar á skrið og horfurnar taldar “hættulega góðar” að mati sérfræðinga. Það er því ekki seinna vænna en að landinn fari að endurnýja Glitnislánin, flykkjast til sólarlanda og flytja í stærra húsnæði (með 90% lánum að sjálfsögðu). Það er líka algjör óþarfi að bíða eftir því að góðærið skili sér í budduna því nú er hægt að fá neyslulán út á sumarbústaðinn. Það gleymdist nefnilega í síðasta góðæri að veðsetja sumarbústaðinn upp í topp, en nú er tækifærið.
Það vekur undrun leikamanns að í þessu komandi góðæri, sem á að verða það kröftugt að það leiði til stórfelldra vaxtahækkana, hafa ekki komið nein skýr aðhaldsmerki frá stjórnvöldum til að stemma stigu við komandi þenslu, nema ef til vill það að senda herinn heim? Nóg hefur verið rætt um þensluáhrif af loforðapakka stjórnarsáttmálans, 90% húsnæðislána, hækkun lánaþaksins og 4% tekjuskattalækkunnar, en svo fallast hendur er framkvæmdir eins og Héðinsfjarðargöng skjóta upp kollinum. Á sama tíma og skynsamlegt virðist að draga úr spennu í þeim atvinnugreinum sem snúa að stórframkvæmdum stendur til að grafa jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Kostnaðaráætlun Vegagerðinnar hljóðaði upp á sex milljarða en það þarf ekki að koma neinum á óvart að öll tilboð sem bárust voru hærri en kostnaðaráætlun, og það hæsta rúmir níu milljarðar. Áætlun gerir ráð fyrir að gangnagröftur hefjist haustið 2004 og vinna við verkið standi yfir í fjögur ár eða með öðrum orðum á sama tíma og framkvæmdir á Austurlandi. Það skal ekki dregið í efa að Héðinsfjarðargöng eru mikilvæg samgöngubót fyrir Norðurland en fyrr má nú rota en dauðrota hagkerfið.
Hið ágæta blað, Economist, greindi frá niðurstöðum sínum fyrir skömmu þess efnis að húsnæðisbóla, svipuð internetbólunni, hefði myndast í heimum sem ætti eftir að springa á næstu árum. Gerir blaðið ráð fyrir því að húsnæðisverð í Bandaríkjunum eigi eftir að falla um 20% og tíu prósentustigum betur í Evrópu áður en yfir er staðið. Rannsókn blaðsins náði því miður ekki til Íslands og því væri fróðlegt að vita hvernig greining blaðsins færi með íslenskan húsnæðismarkað. Umtalsverð hækkun hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu og nái loforðapakki Framsóknarflokksins fram að ganga stefnir í enn frekari hækkanir. Stóra spurningin er, hafa undangengnar hækkanir verið tímabær leiðrétting á húsnæðisverði eða yfirskot?
Það er vonandi að hér sé um leiðréttingu að ræða og að raunin sé sú að íslenskt húsnæði sé undirverðlagt miðað við Evrópumarkað. Sé hins vegar raunin önnur má gera ráð fyrir því að hér fari allt fjandans til. Skuldir heimilanna eru langt umfram æskileg mörk, fara vaxandi með komandi góðæri og eru að miklu leyti með veðum í húsnæði. Falli húsnæðisverð af ráði á Íslandi verða þúsindir ef ekki tugþúsundir Íslendinga, í þeirri stöðu að verðmat eignanna standa ekki undir lánunum. Þar af leiðandi gætu bankar farið að leysa til sín húsnæði, eða það sem verra er, bankarnir gætu dottið á hausinn. Það er samt óþarfi að örvænta því allt eins getur verið að húsnæði sé enn undirverðlagt hérlendis.
Það er hins vegar umhugsunarvert að fólk virðist almennt gera ráð fyrir því að húsnæði hækki í verði á næstu árum. Ég þekki engan sem hefur tapað á húsnæðiskaupum á höfðuborgarsvæðinu en hins vegar marga sem ætla að græða á nýgerðum kaupum. Þegar fermingarbörn fóru að verða sérfræðingar í hlutabréfafjárfestingum í tæknibólunni, áttu einhverjar viðvörunarbjöllur að fara að stað. Þegar nú er svo komið að fólk fjárfestir í húsnæði til að ná inn skyndigróða, er spurning hvort að þessar sömu bjöllur ættu að fara að klingja?
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009