Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Deiglunnar standa nú yfir samningaviðræður milli eigenda enska knattspyrnuliðsins Barnsley og hóps íslenskra og enska fjárfesta um kaup á félaginu. Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands og knattspyrnustjóri Stoke City, fer fyrir hópi fjárfestanna.
Heimildir Deiglunnar herma að viðræðurnar hafi farið á fulla ferð í lok síðustu viku og að Guðjón og félagar hafi átt langan fund með Peter Doyle, stjórnarformanni Barnsley, á laugardaginn.
Eins og margir muna keyptu íslenskir fjárfestar meirihluta í Stoke City að frumkvæði Guðjóns haustið 1999. Í hópi fjárfestanna nú eru aðrir aðilar, bæði enskir og íslenskir. Þessi hópur hefur undanfarnar vikur skoðað nokkra kosti en fyrir helgi var ákveðið að láta til skara skríða í Barnsley.
Barnsley lék fyrir nokkrum árum í ensku úrvalsdeildinni en hefur átt við mikla fjárhagserfiðleika að etja undanfarin ár og leikur nú 2. deild.
Ekki er um s.k. „óvinveitta yfirtöku“ að ræða heldur kaup á félaginu í mikilli sátt við núverandi eigendur. Meðal annars hefur verið rætt um að núverandi eigendur haldi nokkuð stórum hlut í félaginu en líklegra er þó að fjárfestahópurinn kaupi 100% í félaginu.
Guðjón og félagar eiga í keppni við Peter Ridsdale, fyrrum stjórnarformann Leeds United, um kaupin en Ridsdale og félagar hafa verið í viðræðum við eigendur Barnsley um kaup á félaginu um nokkra hríð.
Barnsley er eitt af rótgrónari félögum Englands og tekur heimavöllur yfir 40 þúsund manns í sæti. Öll aðstaða hjá félaginu og æfingasvæði þess er eins og best verður á kosið. Félagið er skuldum vafið og rekstur þess hefur gengið illa undanfarin ár. Ætlun fjárfestanna ensku og íslensku er að yfirtaka skuldir félagsins, sem eru miklar, hagræða í rekstrinum og veita nýju fé í félagið.
- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003