Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn Orrin G. Hatch sem stýrir dómsmálanefnd Öldungadeildarinnar lagði til á fundi nefndarinnar í vikunni að tölvur sem notaðar væru til að sækja eða dreifa á ólöglegan hátt efni sem verndað er með höfundarétti yrðu eyðilagðar. Hugmynd hans er nokkurs konar „three strikes out“ regla sem felst í því að fyrstu tvö skiptin sem efni væri dreift eða sótt ólöglega slyppi viðkomandi með viðvörum en í þriðja skiptið yrði vélbúnaðurinn samstundis, sjálfvirkt og skilyrðislaust eyðilagður.
„I’m all for destroying their machines […] there’s no excuse for anyone violating copyright laws.“
Efni fundarins þar sem Hatch varpaði fram þessari stórfurðulegu tillögu var hvort þjóðaröryggi Bandaríkjanna stafaði hætta af svo kölluðum P2P skráadreifingarkerfum, stundum kölluð jafningjanet á íslensku, eins og Napster, Kaaza og gnutella sem meðal annars eru notuð í þeim tilgangi að dreifa með ólöglegum hætti efni sem varið er af höfundarétti oft músík eða hugbúnaði.
Þó svo að tillaga hans sé hvort tveggja í senn óframkvæmanleg og fáránleg veldur það áhyggjum að menn skuli vera tilbúnir að fórna því grundvallarsjónarmiði að ekki megi skemma eigur annarra og gera það jafnvel án þess að meint brot fari fyrir dóm. Að sama skapi er það skuggalegt hversu langt menn eru tilbúnir að ganga erinda sérhagsmuna og þá sérstaklega sérhagsmuna skemmtanaiðnaðarins á kostnað almennra hagsmuna. Auk þess vekur það óneitanlega furðu að maður í jafn áhrifamikilli stöðu og Hatch skuli láta slíka vitleysu sem þessa út úr sér fara enda hafa viðbrögð við þessari tillögu verið eftir því.
Bent hefur verið á að öfgakenndar aðgerðir sem þessar stangist á við mörg önnur lög og nær útilokað væri að frumvarp um þetta yrði samþykkt væri það lagt fram. Ekki einu sinni talsmenn skemmtanaiðnaðarins hafa tekið undir tillögurnar sem þó hafa sjálfir sett fram áður ansi klikkaðar tillögur varðandi þessi mál en þó ekkert í líkingu við þetta.
Hatch sem er sjálfur lagahöfundur og hefur talsverðar tekjur af lagasmíðum sínum hefur í kjölfar fundarins lítið eitt dregið úr tillögum sínum og kveðst nú opinn fyrir því að skoða aðrar leiðir sem myndu ekki fela í sér sjálfvirka eyðileggingu vélbúnaðarins en bendir samt sem áður á að eyðilegging nokkur hundruð þúsunda tölva myndi senda kröftug skilaboð til fjöldans og kenna mönnum að bera virðingu fyrir hugverkum annarra.
Í framhaldi af þessu hefur svo komið í ljós að Hatch hefur notast við hugbúnað á vefsíðu sinni án þess að hafa leyfi fyrir honum svo að líklega yrði vefþjónn Öldungardeildarinnar einn þeim af fyrstu sem ráðist væri á og eyðilagður næði tillaga hans fram. Þetta sýnir glögglega hversu óraunhæf tillaga hans í raun er þó að það megi hafa örlítið gaman af kaldhæðninni sem í þessu felst.
Verndun hugverka og virðing höfundaréttar er mikilvæg. Í mörgum tilfellum er höfundaréttur forsenda verðmætasköpunar og á sama tíma ein af megin stoðum þróunar og framfara. Til að vernda höfundarétt höfum við sett lög sem tryggja rétt höfundarétthafa og sanngjarna nýtingu annarra. Auðvitað koma upp vafaatriði og lög um höfundarétt eru brotin eins og önnur lög en til þess að skera úr um slík mál höfum við þróað býsna góðar aðferðir gegnum aldanna rás.
Vandamál sem koma upp varðandi verndun höfundaréttar og hugverka eru oft erfið viðfangs en hugmyndir Hatch eru ekki til þess fallnar að leysa þau. Þvert á móti eru þær illa ígrundaðar og til þess eins fallnar að beina athyglinni frá því sem skiptir megin máli sem er að tryggja rétt höfundarétthafa á sama tíma og frelsi annarra til sanngjarnar notkunar sé tryggt. Til þess setjum við lög en hótum ekki ofbeldi.
- Álæði - 22. maí 2005
- Kosningar - 27. október 2004
- Á tröppum spítalanna - 29. september 2004