Á fimmtudagskvöld hélt George W. Bush fyrstu alvöru herræðu sem foresti Bandaríkjanna hefur haldið í meira en áratug. Ég verð seint talinn á meðal aðdáenda forsetans og þar að auki hef ég verulegar efasemdir um ágæti þeirrar stefnu sem hann markaði í ræðu sinni. En þrátt fyrir það verð ég að viðurkenna að ræðan var fyrsta flokks.
Fram að þessu hefur mér aldrei þótt Bush vera mælskur. Raunar hefur mér oftar en ekki fundist pínlegt að horfa á hann tala. Hann hefur virkað á mig sem hálfgerður vitleysingur sem ég hef hingað til ekki trúað að geti mögulega valdið því starfi sem hann gegnir. En á fimmtudagskvöld kvað aldeilis við annan tón. Glottið og heimskulegi hrynjandinn var horfinn og í staðinn var kominn alvöruþrunginn leiðtogi sem virtist vera treystandi til þess að leiða valdamesta ríki heims gegnum súrt og sætt.
Það er þess vegna miður að stefnan sem mörkuð var með ræðunni er í besta falli alvarlega ábótavant. Í ræðunni lýsti Bush svo gott sem stríði á hendur Afganistan. Hann lýsti því yfir að ríki heims þyrftu að gera það upp við sig hvort þau væru „With us, or against us”. Hann undirbjó þjóð sína undir langt stríð sem á stundum yrði háð með ofsafengnum árásum sem almenningur gæti fylgst með í sjónvarpi og í annan tíma yrði háð með leynilegum aðgerðum. Hann undirbjó þjóð sína undir mannfall.
En auk þessa gaf hann sér góðan tíma til þess að gera lýðnum ljóst að þetta stríð væri ekki háð gegn Múhameðstrú eða gegn Aröbum. Hann lýsti því yfir að hryðjuverkamenn væru öfgahópur á meðal Múhameðstrúarmanna og að það yrði ekki liðið að venjulegt löghlýðið fólk sem aðhyltist Múhameðstrú væri látið líða fyrir gjörðir þeirra. Þessi hluti af ræðu Bush var til fyrirmyndar.
Það er fyrri parturinn sem mér finnst orka tvímælis. Öllum er ljóst að á stórum svæðum um heim allan er gríðarleg andúð í garð Bandaríkjanna landlæg. Ljóst er að tilvist þeirra hryðjuverkahópa sem líklegt verður að telja að hafi framið ódæðin í síðustu viku byggist að stórum hluta á þessari andúð. Þess vegna er mér með öllu ómögulegt að skilja hvernig unnt er að komast að þeirri niðurstöðu að besta aðferðin til þess að berjast við þessa hryðjuverkahópa sé að beita því ógurlega valdi sem Bandríkin búa yfir. Er ekki augljóst að slík viðbrögð yrðu aðeins til þessa að auka enn á andúð fólks í garð Bandaríkjanna og þannig styrkja hryðjuverkahópana sem að ódæðinu stóðu? Er ekki augljóst að valdbeiting af hálfu Bandaríkjanna er einmitt það sem hryðjuverkamennirnir eru að vonast eftir?
Leið valdbeitingar hefur verið farin áður og hefur hingað til aldrei skilað tilætluðum árangri. Ísreal hefur beitt algeru ofurefli valds til þess að halda aftur af hryðjuverkahópum Palistínumann án árangurs. Stjórn Súhartós í Indónesíu gerði hið sama til þess að ráða niðurlögum þeirra sem vildu sjálfstæði Austur Tímúr án árangurs. Rússar hafa á undanförnum árum nánast jafnað Téténíu við jörðu án þess þó að hafa tekist að buga „hryðjuverkamennina” þar í landi. Og svona mætti lengi telja (Sri Lanka er annað nýlegt dæmi). Það eina sem eftir stendur er ömurleg fórn mannslífa.
Nú er ég ekki að reyna að halda því fram að þeir sem frömdu ódæðin í síðustu viku eigi ekki að vera sóttir til saka. Það er vitaskuld mikilvægt að þeir fái refsingu sem er við hæfi. Þar að auki hef ég litla samúð með stjórn Talíbana í Afganistan og hefði raunar ekkert á móti því að sjá Bandaríkin steypa henni af stalli með valdi. Á hinn bóginn tel ég óskynsamlegt að notast við hótanir og valdbeytingu sem heildarstefnu gegn hryðjuverkum og hatri í garð Bandaríkjanna. Afleiðing slíkrar stefnu yrði vítahringur ofbeldis í samskiptum vesturlanda og Araba.
En hvers konar stefnu eiga Bandaríkjamenn þá að fylgja? Þegar litið er yfir sögu síðustu alda er aðeins eitt dæmi um stefnu ríkis sem varð þess valdandi að breyta óvinveittum stríðshrjáðum svæðum í dygga friðsama bandamenn. Það er vitaskuld stefna Bandaríkjanna gagnvart Evrópu og Japan eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Á árunum eftir stríð veittu Bandaríkjamenn milljörðum dollara í uppbyggingu þessara svæða sem gerði það að verkum að þau risu úr rústum á ótrúlega skömmum tíma og hafa síðan verið á meðal dyggustu bandamanna Bandaríkjanna. Engum blöðum er um það að fletta að Bandaríkin hafa hagnast meira á efnahagslegum styrk Þýskalands, Japans og annarra ríkja sem þáðu Marshall aðstoð og góðvild þessara ríkja í garð sín en sem nemur því fé sem varið var í endurreisnina.
Við núverandi aðstæður væri að mínu mati skynsamlegast fyrir Bandaríkin að koma heimsbyggðinni á óvart og tilkynna að þau muni veita tugum milljarða dollara til uppbyggingar í fátækum ríkjum heimsins. Stefna af þessu tagi (samhliða skynsamlegum aðgerðum til þess að uppræta hryðjuverkahópa) væri ekki aðeins til þess fallin að breyta smám saman stórum óvinveittum svæðum í dygga bandamenn heldur einnig skynsöm þar sem hún myndi slá öll spil úr höndum hryðjuverkamanna. Ef slík stefna væri framkvæmd skynsamlega, t.d. með því að gera aðstoðina háð stigvaxandi skilyrðum um lýðræði og mannréttindi, væri smám saman unnt að breyta óvinveittum svæðum sem í dag valda Bandaríkjunum talsverðum kostnaði í uppsprettu stóraukinna viðskipta og velsældar fyrir Bandaríkin.
Hér í Bandaríkjunum eru flestir enn uppteknir af því að sanna það hver fyrir öðrum að þeir séu föðurlandsvinir með því að ganga með nælur með bandaríska fánanum og/eða hengja fánann á bílana sina. Þegar sú víma rennur af mönnum er vonandi að hugmyndir af því tagi sem hér hafa verið reifaðar komist til alvarlegrar umræðu.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009