Í helgarútgáfu DV var forsíðugrein um félagsmálaráðherrann Pál Pétursson og konu hans, Sigrúnu Magnúsdóttur, borgarfulltrúa í Reykjavík, undir þeirri mjög svo skemmtilegu fyrirsögn „Neitar að hætta“. Hvort sem það var viljandi gert eða ekki, þá bendir fyrirsögnin eindregið til þess að löngu sé kominn tími á bóndann á Höllustöðum (sem reyndar deilir ekki lögheimili með eiginkonu sinni) að hætta afskiptum af pólitík, en af einhverjum ástæðum þráast hann við og „neitar að hætta“.
Það er nokkuð merkilegt að ráðherratíð Páls verður helst í minnum höfð vegna þess hve lengi honum tókst að sitja, þrátt fyrir altalað væri að hann ætti að vera hættur fyrir löngu – sem og krossferðar Páls gegn fasteignaeigendum á höfuðborgarsvæðinu. Páll hefur nú setið í félagsmálaráðuneytinu í sex ár og fimm mánuði samfellt. Líklega hefur siglt einna lygnastan sjó allra ráðherra í ríkisstjórninni og það er ekki fyrr en nýlega að verulegrar gagnrýni hefur gætt á embættisverk Páls, nefnilega breytingar á brunabótamati.
Sjónir manna beinast iðulega að stóli Páls þegar rætt er um breytingar á ráðherraliði Framsóknarflokksins. Einhverra hluta vegna hallast flestir að því að hann standi síst þeirra Halldórs, Guðna, Sivjar, Valgerðar og Jóns. Það er kannski þess vegna sem karlgreyið þarf alltaf að vera stöglast á því að hann vilji hreinlega ekki hætta, hann neiti því beinlínis. Hann hlýtur að hafa verið beðinn um að hætta, að öðrum kosti gæti hann varla neitað að gera það, eða hvað? Og hver knýr svo fast dyra að Páll er beðinn um að standa upp?
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021