Á síðustu áratugum hefur fleiri og fleiri ríkjum í Austur-Asíu tekist að brjótast til efna. Fyrst var það Japan. Síðan komu Suður-Kórea, Tævan, Singapúre og Hong Kong. Nú vex kínverska hagkerfið með ógnarhraða og er komið vel á veg með að bætast í hóp þróaðra hagkerfa.
Velgengni allra þessara ríkja hefur byggst á örum vexti framleiðslugeirans. Þar sem vinnuafl var ódýrt til þess að byrja með fluttist framleiðsla á alls kyns vörum til þeissara ríkja frá efnaðari ríkjum. Á áttunda og níunda áratugnum var allt milli himins og jarðar “Made in Japan”. Smám saman hækkuðu launin í Japan og framleiðslugeirinn færðist lengra niður þróunarstigann. Á tíunda áratugnum vöndust vesturlandabúar því að vörur þeirra væru “Made in Taiwan” eða “Made in Hong Kong”. Nú er það hins vegar “Made in China” eða “Made in PRC” (Peoples Republic of China) sem tröllríður öllu.
Fram að þessu hafa þau ríki sem ekki hefur tekist að lokka til sín framleiðslufyrirtæki átt mun erfiðar uppdráttar. Svo hefur virst sem öflugur framleiðslugeiri væri lykillinn að velgengni fyrir þróunarríki. Þetta virðist hins vegar vera að breytast.
Indland hefur löngum farið halloka í samkeppni við ríki austar í Asíu um hylli vestrænna framleiðslufyrirtækja. En nú hafa Indverjar fundið nýja leið til þess að skapa hagvöxt. Indverjar hafa áttað sig á því að hlutfallslegir yfirburðir þeirra í dag liggja ekki í ódýru, ómenntuðu vinnuafli heldur annars vegar í almennri ensku kunnáttu á Indlandi og hins vegar í því að yfir tvær milljónir manna útskrifast með háskólapróf á Indlandi á ári hverju.
Í stað þess að byggja hagvöxt á framleiðslugeiranum hefur Indland í auknum mæli tekið að byggja hagvöxt sinn á þjónustuútfluttningi. Ef hringt er í grænt númer í Bandaríkjunum eru miklar líkur á því að símanum sé svarað á Indlandi. Þegar verðbréf ganga kaupum og sölum í Bandaríkjunum á bakvinnslan sér oft á tíðum stað á Indlandi. Stærra og stærra hlutfall vinnu við gerð bandarískra skattframtala á sér stað á Indlandi. Þúsundir manna á Indlandi vinna sem læknaritarar fyrir lækna í Bandaríkjunum. Og svo mætti lengi telja.
Gróskan í þjónustuútfluttningi sem þessum hefur verið gríðarlegur á Indlandi á undanförnum árum. Allt stefnir í að milljónir starfa muni flytjast frá Bandaríkjunum og öðrum enskumælandi löndum til Indlands á næstu árum og áratugum. Þessi þróun er vitaskuld einstaklega ánægjuleg. Enn og aftur sýnir það sig að alþjóðleg viðskipti eru lykillinn að aukinni velmegun fyrir fátækari ríki heims.
Fyrr á tíðum einskorðaðist utanríkisverslun aðallega við viðskipti með vörur. Framfarir í fjarskiptatækni hafa hins vegar gjörbreytt þessu. Og það er segin saga að þá tekst fleiri og fleiri ríkjum að koma ár sinni fyrir borð.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009