Allt útlit er fyrir að San Antonio Spurs muni tryggja sér sigur í NBA deildinni, eftir að hafa komist 3-2 yfir í úrslitarimmunni á móti New Jersey Nets. Ef það gengur eftir er það fimmta árið í röð sem Vesturstrandarlið hampa meistaratitlinum. Los Angeles Lakers vann 2000, 2001 og 2002 en San Antonio varð meistari 1999; árið þegar NBA leikmenn fóru í verkfall og tímabilið var stytt. Árin þar áður vann Chicago Bullsþrjú ár í röð.
Liðin tvö sem mætast í þessum úrslitum eru einkar áhugaverð. Fyrir liði San Antonio Spurs fer verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar í ár, Tim Duncan. Hann er án vafa besti körfuboltamaður í heimi í dag og miðað við leik hans í vetur og í úrslitakeppninni er óhætt að fullyrða að hann sé í hópi þeirra allra bestu í sögu íþróttarinnar. Duncan leikur ýmist stöðu miðherja eða kraftframherja hjá Spurs en mjúkar hreyfingar hans, öryggi í knattmeðferð og útsjónarsemi gera það að verkum að gjarnan er hann maðurinn sem leiðir hraðupplaup liðsins. Þannig bregður hann sér í hlutverk leikstjórnanda og leysir það prýðilega af hendi þrátt fyrir að vera 213 sm hár og næstum 120 kg.
Aðrir áhugaverðir leikmenn hjá Spurs eru leikstjórnandinn Tony Parker og skotbakverðirnir Stephen Jackson og Emanuel Ginobili. Parker er 21 árs Frakki sem býr yfir miklum hraða og getur splundrað upp vörnum og skorað dágóðan slatta af stigum ef sá gállinn er á honum. Jackson er afburðagóð skytta og hefur farið óvenjulega leið inn í byrjunarlið í NBA úrslitunum en framan af ferlinum fékk hann fá tækifæri og þurfti að leita fyrir sér utan NBA deildarinnar til þess að fá tækifæri til að spila. Ginobili er argentínskur bakvörður sem á vafalaust eftir að ná langt í NBA deildinni. Hann er 25 ára gamall en þetta er fyrsta tímabil hans í NBA. Hann lék áður á Ítalíu við frábæran orðstír. Ginobili er mikill íþróttamaður og leikur af óvenjulegri ákefð bæði í vörn og sókn og á það til að hleypa miklu lífi í lið San Antonio þegar hann kemur inn á af bekknum.
Jason Kidd er allt í öllu hjá New Jersey Nets. Kidd hefur fyrir lifandis löngu sýnt að hann er einn af fremstu leikstjórnendum í sögu körfuboltans og þeir eru örfáir leikmenn sem hafa jafnjákvæð áhrif á meðspilara sína og hann. Í leikjunum gegn Spurs hefur Kidd þó átt í töluverðum erfiðleikum með að stýra liði sínu í sókninni gegn vel skipulagðri svæðisvörn San Antonio. Hann hefur þurft að leita mun meira af skotum fyrir sjálfan sig heldur en heppilegast væri fyrir lið Nets. Kidd er nefnilega ekki fæddur stigaskorari þótt hann geti vissulega skilað sínu í þeirri deildinni. Vandi Nets hefur fyrst og fremst verið að liðið á engan miðherja sem er ógnandi í sókninni og getur dreift spilinu með að draga varnarmennina undir körfuna.
Kenyon Martin, kraftframherji, Jackson Richardson, skotframherji og Kerry Kittles, skotbakvörður, eru einnig meginstoðir í leik Nets en einungis Martin hefur verið að skila sínu í úrslitarimmunni hingað til.
Þjálfarar liðana eru báðir kunnir flestum körfuboltaáhugamönnum. Byron Scott þjálfari New Jersey er vitaskuld þekktastur fyrir frábæran feril sinn sem leikmaður hjá Los Angeles Lakers, þegar Magic Johnson gnæfði yfir aðra körfuknattleikmsenn í heiminum. Scott hefur sýnt að hann sé góður þjálfari og hefur gott lag á að leyfa hæfileikum leikmanna sinna að njóta sín. Þjálfari Spurs, Gregg Popovich, virðist hins vegar hafa vinninginn í þessum úrslitakeppnum. Popovich er fyrrum CIA-maður og hefur algjörar stáltaugar. Hann er þekktur fyrir að halda miklum aga á liðum sínum og er óhikandi í ákvörðunartöku.
Næsti leikur liðanna er aðfaranótt sunnudags að íslenskum tíma. Leikurinn er að sjálfsögðu í beinni útsendingu en þess ber sérstaklega að geta að lýsingar þeirra Snorra Sturlusonar, Friðriks Inga Rúnarssonar, Svala Björgvinssonar og Péturs Guðmundssonar eru sennilega bestu íþróttalýsingar á Íslandi. Þeir eru uppfullir af fróðleik og leikskilning sem þeir miðla af miklum áhuga til áhorfenda. Sérstaklega hefur Pétur verið góð viðbót við þulateymið á Sýn. Hann er mjög naskur á að koma auga á það sem skiptir máli í leiknum, auk þess sem því verður ekki neitað að það er óhemjusvalt þegar hann segir “Ég man þegar ég spilaði með Lakers þá….”. Pétur fer þó sparlega með slíkar tilvísanir og er algjörlega laus við grobb eða yfirlæti þegar hann rifjar upp sinn ágæta NBA feril sem því miður varð endaslepptur sökum bakmeiðsla.
- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003