Varnarsamningur Íslands við Bandaríkin hefur þjónað okkur Íslendingum ákaflega vel í þau rúmu 50 ár sem hann hefur verið í gildi. Á tímum Kalda stríðsins efuðust fáir um mikilvægi fastrar viðveru flughers og flotastöðvar á Íslandi í ljósi þeirrar ógnar sem þá stafaði að Íslandi úr austri. Í litteratúr Kalda stríðsins var oft minnst á Ísland og talað um herstöð Bandaríkjanna þar sem “strategically important” – eða strategískt mikilvæga. Nú bregður öðruvísi við, enda engin ógn frá vinaþjóðum okkar í austri. Embættismaður Nató orðaði þetta á dögunum við blaðamann Reuters og sagði þá að Ísland væri “strategically on the edge of nowhere” – eða strategískt á jaðri einskinsmannslands. Þessi umpólun á hernaðarmikilvægi Keflavíkur í alþjóðlegu samhengi er staðreynd hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
Ljóst er að miklir atvinnuhagsmunir eru í húfi á Suðurnesjum ef Bandaríkin ákveða einhliða að draga mjög verulega og hratt úr viðbúnaði sínum á Keflavíkurflugvelli. Talið er að um 1.700 Íslendingar eigi afkomu sína að miklu leyti undir starfsemi varnarliðsins komna. Ef illa er að verki staðið í samningum á milli Banaríkjanna og Íslands um framtíð varnarliðsins er víst að atvinnuástandi á þessu landsvæði er teflt í algjöran voða. Eðlilegt hlýtur að teljast að Bandaríkjamenn gefi Íslandi verulegan aðlögunartíma til þess að bregðast við þessu áfalli í Reykjanesbæ ef ákvörðun um brottflutning stórs hluta vígbúnaðins verður tekin.
Það er í sjálfu sér ekkert sérstakt metnaðarmál fyrir okkur Íslendinga að hér á landi sé staðsettur her. Í raun ætti hið gagnstæða að vera áfram reglan hér á landi. Íslendingar hafa löngum verið vopnlaus þjóð enda hefur landfræðileg lega landsins hingað til dugað ágætlega til þess að gera hernaðarinnrás fremur hæpið og óarðbært fyrirtæki að ráðast í. Með aðild okkar að Nató er innrás í Ísland gerð enn óskynsamlegri enda hefur ekkert ríki hætt á það í sögu Atlantshafsbandalagsins að bjóða mesta hernaðarbandalagi heimsins byrginn með því að ráðast á eitt aðildarríkjanna.
Hugmyndir um að Ísland bregðist við hugsanlegum brottflutningi Bandaríkjamanna með því að stofna einhvers konar heimavarnarlið, eða her, eru ákaflega bjánalegar. Í fyrsta lagi hefði stofnun hers í för með sér stórkostleg ríkisútgjöld, sennilega tugi milljarða árlega.
Í öðru lagi má nefna að her er ákaflega valdamikil stofnun og það einungis af illri nauðsyn sem slíku valdatæki er á fót komið. Einn óhugnalegasti fylgikvilli hers er leyniþjónustustarfsemi, sem myndi þýða grundvallarbreytingu á íslensku þjóðlífi – til hins verra. Valdamikilli stofnun eins og her fylgja líka tækifæri fyrir óvandaða menn sem kynnu að nýta sér herinn til þess að tryggja eigin völd í landinu.
Í þriðja lagi má benda á að þótt Bandaríkjaher ákveði tímabundið að draga úr viðbúnaði á Íslandi þá gildir varnarsamningurinn frá 1951 þannig að gera má ráð fyrir að ef hætta kynni að steðja að Íslandi þá hefðu Bandaríkjamenn skyldu til að efla viðbúnað sinn að nýju. Ef Ísland þykist hins vegar ætla að láta nokkur hundruð manna herlið bregðast við ógninni er hugsanlegt að Bandaríkjamenn hafi ágæta afsökun fyrir að halda sig fjarri
Í fjórða lagi er rétt að ítreka þá miklu landvörn sem felst í aðild okkar að Nató. Það er óhætt að fullyrða að það þyrfti að vera ansi mikill fáviti sem léti sér detta í hug að ráðast til atlögu við öll aðildarríki Nató með því að gera fyrirvaralausa árás á litla Ísland, því fimmta grein Nató-sáttmálans felur í sér að árás á eina aðildarþjóðanna jafngildi árás á þær allar.
Deiglan er því þeirrar skoðunar að Íslendingum beri að leggja áherslu á það við Bandaríkjamenn að loftvarnarviðbúnaður verði áfram til staðar á Íslandi. Ef ekki er hægt að tryggja slíkt þarf að gera þá kröfu til Bandaríkjanna að þeir leggi fram ítarlegar og aðgengilegar tillögur um hvernig lofthelgi Íslands verði vöktuð án fastrar viðveru orrustuflugvéla, t.d. með samstarfi við aðrar Natóþjóðir. Þá er eðlilegt að Bandaríkjamenn geri aðlögunarsamning við Ísland vegna þess atvinnumissis sem vofir yfir fjölda fólks á Suðurnesjum. Slíkur samningur er eðlilegur í ljósi þeirrar atvinnuröskunar sem Bandaríkjastjórn ylli hér á landi með skyndilegum samdrætti.
Íslensk stjórnvöld studdu Bandaríkin dyggilega í Kalda stríðinu, með því að veita hernum aðstöðu í eigin landi; á stað sem á sínum tíma var einhver sá hernaðarlega mikilvægasti í hinu viðkvæma valdajafnvægi sem ríkti á milli tveggja hernaðarstórvelda. Þannig gerði Ísland sig að skotmarki á tímum þegar oft munaði litlu að heimurinn kollsteyptist út í það sem án efa hefði verið hörmulegasta stríð í sögu mannkyns.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008