Því er oft haldið á lofti í umræðum um vefmiðlana, að á þeim grasseri alls kyns ærumeiðingar og dónaskapur sem annað hvort er skrifaður undir dulnefni eða hreinlega nafnlaus. Þetta þykir mörgum draga úr trúverðugleika þessara miðla. Ærumeiðingar og dónaskapur er vissulega til þess fallinn að sverta þann miðil sem birtir slíkt. Hins vegar gætir þess miskilnings í umræðunni að vegna þess að þetta sé á Netinu og höfundur efnisins komi ekki fram undir réttu nafni, beri enginn ábyrgð á birtingunni.
Ærumeiðingar eru auðvitað refsiverðar samkvæmt almennum hegningarlögum. Hver sem á sig telur hallað getur leitað með það fyrir dómstóla. Þetta vita nú flestir en það sem virðist valda ruglingi, er sú staða þegar enginn er skrifaður fyrir efninu. Að hverjum ber þá að beina málssókn? Í gildi eru hér á landi lög um prentrétt nr. 57 frá 1957. Líklegt verður að teljast að ákvæðum laganna megi beita með lögjöfnun um efni á Netinu þegar það á við. Í 2. og 3. mgr. 15. gr. laganna segir:
Ef enginn slíkur höfundur hefur nafngreint sig, ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgðina, því næst sá er hefur ritið til sölu eða dreifingar, og loks sá, sem annast hefur prentun þess eða letrun.
Þarna er mælt fyrir um ákveðna sakarröð, þ.e.a.s. tilteknir aðilar bera ábyrgð á birtu efni hver á eftir öðrum. Ef efni er ekki merkt ákveðnum höfundi, þá ber útgefandi eða ritstjóri ábyrgðina. Ef engir slíkir finnast ber sölu- eða dreifingaraðili ábyrgð og ef hann finnst ekki fellur ábyrgð á prentarann.
Ef þetta er yfirfært yfir Netið, þá ber höfundur ábyrgðina í fyrsta lagi. Ef honum er ekki til dreifa ber ritstjóri viðkomandi síðu ábyrgðina eða sá sem annast síðuna. Ef þeir finnast ekki er hugsanlegt að leggja þann skilning í ákvæði 3. mgr. (…sá sem hefur ritið til sölu eða dreifingar…) að vistunaraðili síðunnar beri ábyrgð á efni hennar og loks sá sem séð hefur um að setja efnið inn á hana.
Ábyrgð á birtu efni á Netinu er því tvímælalaust til staðar, alveg eins og hjá prentuðum miðlum. Menn ættu því ekki láta einhverjar ranghugmyndir um þessi mál skekkja hjá sér myndina, þegar rætt er um áreiðanleika vefmiðla í samanburði við aðra miðla.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021