Alþingi var sett í gær í 127. sinn frá endurreisn þess. Þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stendur sterkt eftir sex ára stjórnarsamstarf, en í nýlegri skoðanakönnun, sem birt var í dag, kemur fram, að tæplega tveir þriðju kjósenda styðja ríkisstjórnina. Framsóknarflokkurinn er enn að rétta úr kútnum og þokast hægt og rólega í átt að kjörfylgi sínu eftir eilitla niðursveiflu síðustu misserin. Samfylkingin og Vinstrigrænir deila næstum bróðurlega á milli sín 40% fylgi í sömu skoðanakönnun en lengra nær bræðraþel þessara flokka víst ekki.
Þessi tvíhöfði íslenskra vinstri manna, sem samkvæmt venju er klofinn í herðar niður, hefur afskaplega fátt til málanna að leggja við upphaf þings. Ekki vantaði hörkutóninn í þá Steingrím og Össur í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra en sá tónn var þó í senn falskur og innantómur. Fyrstu skref stjórnarandstöðunnar á 127. löggjafarþinginu benda mjög sterklega til að stjórnarmeirihlutinn eigi enn einu sinni náðugan vetur framundan. Samfylkingin er afar upptekin af því að breyta heiminum og gagnrýnir nú óspart frá hægri, á meðan Vinstrigrænir eru auðvitað fastir í því að breyta sem minnstu, færa tímann helst eitthvað aftur á við, og gagnrýna vitaskuld frá vinstri.
Þingmeirihlutinn er því þægilegri stöðu. Hann getur komið til móts við sjónarmið Samfylkingarinnar með því að leggja meiri áherslu á niðurskurð ríkisfjármála, lækkun skatta, einkavæðingu og önnur hefðbundin hægri sjónarmið, sem rýnihópsmeistarar Samfylkingarinnar hafa fundið út að væru málið í vetur. Hins vegar gæti meirihlutinn sveigt til vinstri; hækkað skatta og aukið útgjöld verulega (t.d. 400 milljónir í ölmusu til þeirra sem ekki fá að ráða atvinnuuppbyggingu sinni sjálfir) og komið þannig til móts við VG.
En auðvitað gæti stefna Samfylkingarinnar breyst eftir næstu rýnihópalotu og Guð má vita hvað verður aðalmálið þá. Í öllu falli þá mun stjórnarandstaðan líklega verða til lítilla afreka á þinginu í vetur. Miklu fróðlegra verður að fylgjast með hvernig samstarf stjórnarflokkanna kemur til með að þróast. Árekstrar gætu orðið í viðkvæmum málum á borð við skattalækkanir, sérstaklega hvað varðar hinn rangnefnda hátekjuskatt. Það hlýtur hins vegar að vera forystumönnum stjórnarflokkanna hvatning til samstarfs að næstum tveir þriðju kjósenda styðja ríkisstjórnina enn, sex árum eftir að hún var mynduð.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021