Rio Ferdinand varð í dag dýrasti leikmaður enskrar knattspyrnusögu er hann gekk til liðs við Manchester United frá Leeds. Rauðu djöflarnir reiddu af hendi rúmlega 30 milljónir sterlingspunda, um 4 milljarða króna, fyrir þennan rétt tvítuga varnarmann. Þetta eru miklir fjármunir og vafalítið finnst mörgum fremur takmörkuð vitglóra í þessu öllu saman. Hver er svo góður í fótbolta, að einhver vilji borga fjóra milljarða fyrir að hafa hann í vörninni hjá sér? Þessi spurning er sérlega viðeigandi þegar Manchester United er annars vegar, því viðskiptamottóið hjá því ágæta félagi virðist vera að kaupa dýrt og selja ódýrt.
Ekki er það ætlunin að gera lítið úr hæfileikum Rios Ferdinands, hann er hafsent af guðs náð, og vafalítið er þetta ekki vitlausasta fjárfesting forráðamanna Manchester United síðustu árin. Menn verða líka að hafa hugfast að eyðslufylleríið þjónar fjárhagslegum tilgangi félagsins. Manchester United vann enga titla á síðasta keppnistímabili, Arsenal vann hins vegar flest allt sem í boði var. Á hverju ára gera milljónir ungmenna um heim allan endanlega upp hug sinn um hvaða enska knattspyrnulið þau ætli að halda með. Ræður þar vafalítið mestu hvaða lið er „aðalliðið“ á þeim tíma.
Gera má ráð fyrir því að áhangendum Arsenal á heimsvísu hafi fjölgað gífurlega eftir velgengni liðsins á knattspyrnuvellinum sl. vetur. En það er ekki bara velgegnin eins og sér sem ræður því á hvaða hest ungmennin veðja. Það eru líka stjörnurnar. Forráðamenn United eru því ekki bara að kaupa hafsent, þeir eru að kaupa stjörnu, þeir eru í raun að kaupa vörumerki. Enn eitt gróðavænlegt vörumerki í þessu ríkasta knattspyrnufélagi heims, þar sem fyrir eru súperstjarnan Beckham og goðið Ryan Giggs.
Með því að borga hina stjarnfræðilegu upphæð fyrir Ferdinand gerðu forráðamenn United hann samstundis að knattspyrnugoði, stimpillinn er „dýrasti knattspyrnumaður Englands fyrr og síðar“ er áhrifararíkt vörumerki. Knattspyrnuhæfileikar Rios Ferdinands eru hugsanlega ekki fjögur þúsund milljóna króna virði, en þegar öllu er á botninn hvolft verður að telja líklegt að stórfyrirtækið Manchester United Plc muni ekki tapa miklum fjármunum á þessum kaupum, hvernig svo sem strákurinn kemur til með að standa sig.
- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003