Flest bendir nú til þess að Bandaríkjamenn verði að ráðast inn í Afganistan ef þeir ætla að hafa hendur í hári Osama Bin Ladens og fylgismanna hans. Talibanar virðast ekki á þeim buxunum að framselja ódæðismennina enda „ósannað” að þeirra mati að nokkur tengsl séu á milli Bin Ladens og hryðjuverkanna. Ef hins vegar svo ólíklega vildi til að Bin Laden og hans fylgismenn yrðu framseldir hvað á þá að gera við þessar mannleysur? Ef þeir verða framseldir til Bandaríkjanna er nokkuð augljóst hvað um þá verður en verði þeir framseldir til NATO eða Evrópuríkja er málið ekki eins einfalt.
Bandaríkjamenn hafa löngum verið hrifnir af dauðarefsingum og yrðu siðfræðilega ekki í vandræðum með að refsa þessum ofstækismönnum. Í Evrópu telja menn sig hins vegar vera mjög siðfræðilega þenkjandi og hafna dauðarefsingum af misgrundvölluðum „prinsipp” ástæðum. Ef það kæmi í hlut Evrópuríkja að refsa þessum mönnum yrðu þeir, samkvæmt evrópskum lögum, væntanlega dæmdir í lífstíðarfangelsi – en ekki drepnir. Hvernig myndi slík refsing samræmast siðferðisvitund Evrópubúa? Af umfjöllun um málið að dæma kemur í ljós að mjög stór hluti evrópsks almennings hefur lítinn áhuga á að fangelsa þessa menn heldur vill koma þeim undir græna torfu. Margir vilja meina að það væri vel sloppið að fá einungis lífstíðarfangelsisdóm fyrir slíkan voðaverknað. Auk þess hefur verið bent á að það gæti beinlínis verið hættulegt að fangelsa Osama Bin Laden því það gæti orðið til þess að fleiri flugvélum yrði rænt í því skyni að krefjast lausnar hans.
Af framansögðu kemur í ljós að afstaða til dauðarefsinga er í hugum margra ekki byggð á siðfræðilegum grundvelli heldur „magni”. Ef þú drepur einn mann skaltu taka út refsingu þína í fangelsi, ef þú drepur 10 manns skaltu sitja inni það sem eftir er ævinnar en ef þú drepur 6000 manns skaltu sjálfur drepast ásamt þeim sem nálægir eru.
Til þess að komast hjá þessum siðferðis- og lagalegu flækjum er sennilega best að skilgreina refsiaðgerðina sem stríð – því að í stríði er allt leyfilegt. Q.E.D.
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009