Þann 23. og 24. júní næstkomandi eru fyrirhuguð inntökupróf við læknadeild Háskóla Íslands. Þetta er í fyrsta skipti í sögu deildarinnar sem slík próf eru haldin og því ljóst að deildin er að stíga mikið framfaraskref.
Aðsókn í læknadeild Háskóla Íslands hefur verið mikil undanfarin ár. Deildin skiptist í tvær skorir læknisfræðiskor og sjúkraþjálfunarskor. Inntökuprófin munu gilda fyrir báðar skorirnar. Þessi inntökupróf áttu að hefjast síðasta vor. Stjórnendur framhaldsskóla mótmæltu hins vegar skipulagi þeirra og töldu að skólar sínir, og þar með nemendur, væru ekki tilbúnir fyrir þessa miklu breytingu. Af þeim sökum ákvað Háskólaráð HÍ að fresta þessum breytingum um ár.
Hingað til hefur s.k numerus clausus kerfi verið við lýði við læknadeild HÍ. Stúdentar hafa þanig skráð sig í læknisfræði eða sjúkraþjálfun, numið fræðin í eina önn og tekið svo útsláttarpróf þar sem aðeins þeir hæstu komast áfram. Síðasta haust komust 48 stúdentar inn í læknisfræði og 20 inn í sjúkraþjálfun, en um 230 stúdentar þreyttu útsláttarprófin. Þetta leiddi til þess að mikill fjöldi nemenda sat eftir í tómarúmi og þurfti ýmist að hætta í skólanum eða skrá sig í aðra deild. Slíkt kerfi hefur þau áhrif að nemendur eru undir miklu álagi í rúma þrjá mánuði þar sem engin vissa er um framhaldið. Þekkt er að nemendur geri jafnvel ráð fyrir því að komast ekki inn í fyrstu tilraun, heldur að tvær eða jafnvel þrjár tilraunir þurfi til.
Inntökuprófin hafa nú verið í undirbúningi í meira en tvö ár. Ákveðið var að breyta þessu fyrirkomulagi í læknadeild þar sem numerus clausus kerfið var ekki talið hafa nægjanlegt forspárgildi um getu stúdenta. Inntökuprófinu verður skipt upp í tvo hluta. Annarsvegar verður hluti byggður á námsefni úr framhaldsskóla, þar sem aðaláhersla verður lögð á raunvísindi, og gildir sá hluti 70 % af heildareinkunn. Hinn hlutinn mun byggjast upp á almennri þekkingu, nálgun og úrlausn vandamála og siðfræðilegum álitaefnum, og gildir hann 30 %. Þessi próf verða einnig röðunarpróf þar sem þeir 48 hæstu í læknisfræði komast áfram og þeir 20 hæstu í sjúkraþjálfun.
Þessi inntökupróf fela í sér miklar breytingar, bæði fyrir læknadeild HÍ og þá stúdenta sem hyggja á nám í þessum fræðum. Til að koma til móts við nemendur hefur læknadeildin haldið úti kynningarstarfi á fyrirkomulagi prófanna í framhaldsskólum landsins. Einnig hefur deildin sett nauðsynlega upplýsingar á heimasíðu sína og svarað fyrirspurnum stúdenta í gegnum tölvupóst.
Það er ljóst að þessar breytingar marka ákveðin tímamót í kennslu í þessum fræðum á Íslandi. Vonandi mun þetta verða til þess að hæfari einstaklingar veljast í þetta nám og að færri stúdentar þurfi að eyða miklum tíma í að finna það nám sem hentar þeim.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006