Talið er að um fjórðungur Íslendinga þjáist einhvern hluta ævinnar að einhverju marki af þunglyndi. Sjúkdómurinn er talinn vera undirrót um 80% allra sjálfsvíga, en hér á landi falla að jafnaði fleiri en þrír einstaklingar fyrir eigin hendi í hverjum mánuði. Hér er því mikil alvara á ferð og þörf á átaki sem þessu.
Sakir lítillar almennrar þekkingar um sjúkdóminn hafa ríkt nokkrir fordómar um hann og því er enn meiri ástæða til að fagna átakinu. Vegna þessara viðhorfa er enn erfiðara fyrir þunglyndissjúklinga að leita sér hjálpar og í mörgum tilfellum gera þeir sér alls ekki grein fyrir ástandinu. Fólk getur fengið þunglyndi í tengslum við áföll og þá getur verið erfitt að greina á milli eðlilegra sorgarviðbragða og þunglyndis.
Há tíðni sjálfsvíga er ein helsta ástæða þess að verkefninu er ýtt úr vör. Sumum finnst ótrúlegt að fólk geti orðið svo langt leitt að það ákveði að svipta sig lífi. Ekki bara vegna þeirra hrikalegu áhrifa sem það hefur á alla aðstandendur, heldur líka vegna þess hve dýrmæt gjöf lífið er. Staðreyndin er þó því miður sú að angist og sálarkvöl fólks sem á við þunglyndi að stríða getur virst því óyfirstíganleg.
Það er mjög erfitt fyrir alheilbrigt fólk að setja sig í spor hins þunglynda. Það er erfitt að skilja að sumt fólk sér enga framtíð í lífi sínu. Að það vakni fullt kvíða á hverjum einasta morgni og finni hvorki ást né sorg í hjarta sínu heldur finni aðeins til tómleika. En allt eru þetta dæmigerð einkenni þunglyndis. Jafnvel fólk sem virðist eðlilegt í öllu viðmóti getur átt í erfiðri glímu við sjúkdóminn.
Með umræðu og fræðslu er hægt að vinna mjög gott verk. Þannig má vekja aðstandendur til umhugsunar, en aðstoð og stuðningur þeirra getur skipt sköpum. Mikilvægast er þó að þeir sem eru þjáðir af þunglyndi geti leitað sér hjálpar sjálfir, því oft eru einkennin hulin öðrum en þeim sjálfum. Þunglyndi er læknanlegt og því ættum við öll að styðja þetta góða átak. Með aðstoð gera jafnvel þeir sem eru fastir í myrkustu svartholum sálarinnar fundið ást og gleði á ný.
Það er auðvelt að gleyma sér í lífinu því kröfurnar eru miklar. Það gerir gæfumuninn að staldra við og huga að því hvað það er sem skiptir raunverulega máli í lífinu. Verum til staðar hvert fyrir annað og gætum líka að því að huga að sálartetrinu í sjálfum okkur.
Hægt er að kynna sér átakið betur hér á síðu Landlæknisembættisins en því verður formlega hleypt af stokkunum þann 16. júní næstkomandi.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021