Á víðfrægri ljósmyndasýningu, sem nú er komin til Íslands, og sett hefur verið upp á Austurvelli, er að finna fjölda glæsilegra mynda. Myndirnar eru í senn nokkuð magnaðar, enda sýna þær í flestum tilvikum eitthvert þeirra fjölmörgu smáundra veraldar sem alltof fáum er ljóst að eru til.
Meðal undranna sem fest hafa verið svo listavel á filmu, og vakti athygli pistlahöfundar, voru sannkölluð sjávarþorp eða borgir. Myndirnar sýndu litríkar byggðir reistar á stólpum úti á reginhafi, og pælingar um tilurð og gangverk samfélaganna létu í kjölfarið á sér kræla.
Sagan segir t.d. af filippeyskri sjávarþjóð, Bajau laut, sem byggir heilt þorp á stólpum á rifi einu í Suluhafi. Bajau laut fólkið hefur átt bústað sinn á hafinu í þúsund ár, og fyrir þeim er hafið ekki síður heimili en fæðuauðlind. Á fyrri tímum bjó þjóðflokkurinn í bátum sínum, en þeir mynduðu saman eins konar fljótandi þorp. Þegar horfur voru á góðri veiði var flotþorpið leyst upp, siglt var af stað og með samhentu átaki reynt að moka aflanum um borð.
Í síðari tíð hefur bátaþjóðin reist einföld hús á stólpum. Þau standa oft saman í minni þyrpingum sem aftur eru tengdar saman með göngubrúm. Þetta fólk býr alla sína ævi úti á sjónum. Það fer ferða sinna á litlum húsbátum og þeir eru víst færri en fleiri sem að upplifa það að hafa fast land undir fótum. Því má nærri geta að skyldleikahjónabönd eru tíð.
Bátaþjóðin hefur engu að síður lífsviðurværi sitt af sölu sjávarvarnings til þeirra sem að búa á landi, en þeir selja allt frá perlum og kóröllum til fisks og skjaldbökueggja. Mikilvægasta söluvara þeirra, sem er annarri fiskveiðiþjóð norður í Atlantshafi að góðu kunn, er hinsvegar þurrkaður fiskur.
Bajau laut fólkið hefur verið nefnt hirðingjar hafsins, því ekki er vitað til þess að það hafi nokkurn tímann tengst neinu ákveðnu landsvæði eða eyju, og kjósa þau helst að halda fjarlægð sinni frá skarkala heimsins. Litið er til lands með tortryggni og í þeirra huga er þurrlendið aðeins ætlað hinum látnu.
Þetta er aðeins saga einnar myndar, en á Austurvelli er um þessar mundir hægt að finna fjölmörg tilefni til þess að láta hugann hvarfla til fjarlægra staða og ólíkra menningarsamfélaga. Það er hollt hugarflug, enda gott að minna sjálfan sig á það reglulega að Reykjavík, Ísland er fjarri því að vera nafli nokkurs hlutar, og að maður sjálfur er sandkorn eitt.
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007