Atli Eðvaldsson hefur nú stýrt íslenska landsliðinu í knattspyrnu í rúm þrjú ár. Á þeim tíma hefur liðið fallið um heil 25 sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Íslenska landsliðið hefur fallið um sjö sæti frá fyrra mánuði á styrkleikalista sem birtur var í gær. Stendur landsliðið nú í 68. sæti listans, í sætinu fyrir neðan Fílabeinsströndina og er landslið Zambíu næst þar á eftir.
Þegar Atli tók við stjórn liðsins af Guðjóni Þórðarsyni í desember 1999 hafði íslenska liðið nýlokið þátttöku sinni í afar sterkum undanriðli EM 2000 með miklum sóma og var liðið þá í 43. sæti styrkleikalistans.
Guðjón hafði þá stýrt liðinu í rétt rúm tvö ár, en hann tók við liðinu síðla sumars 1997 eftir að Logi Ólafsson var leystur frá störfum. Þá var liðið í 88. sæti styrkleikalistans.
Eins og meðfylgjandi línurit ber með sér kleif landsliðið hratt um listann undir stjórn Guðjóns og náði klifið hámarki um það leyti sem Guðjón lét af stjórn liðsins. Síðan þá hefur hallað undan fæti og þess sjást nú glögg merki að landslið Íslands stefnir lóðbeint niður styrkleikalistann.
Auðvitað segir staða liðsins á styrkleikalistanum á hverjum tíma ekki alla söguna, ýmislegt getur þar haft áhrif. En því verður hins vegar ekki neitað þegar þróunin er skoðuð yfir fimm til sex ára tímabili, eins og gert er hér að ofan, liggur í augum uppi hvort landsliðið er á uppleið eða niðurleið.
Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum Deiglunnar innan KSÍ hefur það komið til tals manna á milli að segja að Atla Eðvaldssyni upp störfum í ljósi slaks árangurs. Vilji er þó fyrir innan forystu sambandsins að halda samninginn við Atla út undankeppni EM 2004 og verður að teljast harla ólíklegt gripið verði til svo róttækra aðgerða að segja landsliðsþjálfaranum upp störfum.
Gengi liðsins og sú þróun sem hér að ofan er lýst hefur hins vegar farið í taugarnar á ýmsum í knattspyrnuhreyfingunni og samkvæmt heimildum Deiglunnar eru styrktaraðilar teknir að ókyrrast, enda lítil stemmning í kringum landsliðið.
Fari svo að íslenska liðinu hlekkist enn frekar á en orðið er í undankeppni EM, gæti komið upp sú staða, að mati þeirra sem Deiglan hefur rætt við í knattspyrnuhreyfingunni, að landsliðsþjálfarinn yrði látinn fara. Þó telja menn að mikið þurfi að ganga á til þess.
Flestir eru hins vegar sammála um það að harla ólíklegt sé að samningur KSÍ við Atla Eðvaldsson verði endurnýjaður. Ýmsir kostir eru í stöðunni hvað varðar eftirmann Atla.
Rætt hefur verið um að fá erlendan þjálfara til starfans, sem hefði aðsetur á meginlandinu og gæti fylgst náið með íslenskum atvinnumönnum þar og á Bretlandseyjum. Eins og kunnugt er gegnir Atli Eðvaldsson starfi landsliðsþjálfara sem hlutastarfi en hans aðalstarf er að selja tryggingar hjá tryggingarfélagi hér á landi.
Ef ráða á Íslending til starfans koma ýmis nöfn til greina. Nefna má Teit Þórðarson í því sambandi, en margir voru á því að ráða Teit þegar KSÍ endurnýjaði samninginn við Atla eftir undankeppni HM. Teitur hefur hins vegar nýverið ráðið sig til starfa hjá norska liðinu Lyn.
Þá er spurning hvort Guðjón Þórðarson myndi taka upp þráðinn þar sem frá var horfið en Guðjón starfar nú sem útsendari hjá enska úrvalsdeildarliðinu Aston Villa. Annar leikur í stöðunni gæti verið að fá einhvern af núverandi þjálfurum íslensku liðanna, t.a.m. Bjarna Jóhannesson eða Ólaf Þórðarson.
Deiglan hefur áður fjallað um þá miklu möguleika sem íslenska landsliðið í knattspyrnu átti í frekar slökum undanriðli fyrir EM 2004 og verður að segjast eins og er, að Íslendingar hafa aldrei átt jafn góða möguleika á sæti í lokakeppninni.
Eftir hörmulegt gengi, þ. á m. tvö töp fyrir Skotum, í upphafi riðlakeppninnar, er ósennilegt að þetta sögulega tækifæri verði nýtt. Enn má þó laga stöðuna og hagstæða úrslit gegn Færeyingum, Þjóðverjum og Litháum í þeim leikjum sem eftir eru, gætu lappað upp á stolt íslenskra knattspyrnuáhugamanna – sem hefur hnignað í samræmi við línuritið hér að ofan síðustu misserin.
- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003