Forystumenn stjórnarflokkanna lögðu fram tillögur sínar í gærkvöldi um skipan ráðherra í nýja ríkisstjórn. Eins og búist hafði verið við voru tillögurnar samþykktar af þingflokkum flokkanna.
Mun meiri breytingar verða á ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokksins. Ljóst er að ný ný kynslóð er að brjótast til áhrifa í íslenskum stjórnmálum, en af tólf ráðherrum verða nú tveir fæddir árið 1965. Konum fjölgar ekki frá því sem verið hefur, fækkar raunar fyrst um sinn, en þegar lokaskipan stjórnarinnar er komin verða þær þrjár eins og hingað til.
Hjá Framsóknarflokknum vekur einna mesta athygli að Árni Magnússon, nýr þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, sest beint í ráðherrastól – tekur við af Páli Péturssyni sem félagsmálaráðherra.
Flestir höfðu reiknað með að oddviti flokksins i hinu Reykjavíkurkjördæminu, Jónína Bjartmarz, yrði félagsmálaráðherra. Árni hefur hefur hins vegar um árabil verið einn nánasti samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar, og þar áður Valgerðar Sverrisdóttur, og hann er því í „flokkselítunni“. Það er líka til marks um hversu staða hins verðandi forsætisráðherra Framsóknarflokkksins er sterk, að hann skuli geta gert nýjan og til þess að gera reynslulausan þingmann að ráðherra, svo að segja mótatkvæðalaust.
Aðrar breytingar verða ekki á ráðherraliði Framsóknarflokks, ef frá er talið að Siv Friðleifsdóttir hverfur úr ríkisstjórninni þann 15. september á næsta ári þegar uppstokkunin verður.
Öllu meiri breytingar urðu á ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins. Til að byrja með víkur Sólveig Pétursdóttir úr stóli dóms- og kirkjumálaráðherra fyrir Birni Bjarnasyni. Um áramótin tekur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir við embætti menntamálaráðherra af Tómasi Inga Olrich og 15. september á næsta ári verður Sigríðu Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður ráðherra um áramót og er það mikið fagnaðarefni. Mikill þrýstingur var uppi um að henni yrði falið forystuhlutverk og með tilkomu hennar í ráðherrastól um áramótin er ljóst, að hún hefur endanlega skipað sér í forystusveit flokksins.
Þorgerðar Katrínar bíða mikilsverð verkefni í menntamálaráðuneytinu. Á sviði menntamála hlýtur það að verða fyrsta verkefni nýs ráðherra að halda áfram að vinda ofan hinni miklu miðstýringu sem komið var á í menntamálum þjóðarinnar á seinni hluta tíunda áratugarins. Í menningarmálum blasir við að stöðva verður útþenslu ríkismenningar sem hefur verið með ólíkindum á síðustu kjörtímabilum, á sama tíma og ríkið hefur verið að draga sig í hlé á öðrum sviðum mannlífsins.
Deiglan bindur miklar vonir við tilkomu Þorgerðar Katrínar. Sjálfstæðisflokkurinn mun standa sterkari með slíka manneskju í forystusveitinni.
Ljóst er að mikill þrýstingur hefur verið á að Sólveig viki úr ráðherrastóli. Björn Bjarnason snýr aftur í landsmálin og ráðherrastól eftir misheppnað framboð til borgarstjórnar, þar sem borgarstjórnarflokkurinn undir forystu Björns beið afhroð í síðustu borgarstjórnarkosningum.
Björn er hins vegar hvergi nærri hættur og í dómsmálaráðuneytinu fær hann upplagt tækifæri til að sinna mörgum af helstu hugðarefnum sínum. Þannig verður athyglisvert að sjá hvort Björn fylgir eftir hugmyndum um stofnun íslenskrar leyniþjónustu eða heimavarnarliðs.
Sú spurning vaknar hver tekur við af Birni sem oddviti borgarstjórnarflokksins. Þar má nefna Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, sem hefur mesta reynslu núverandi borgarfulltrúa, en einnig Guðlaug Þór Þórðarson, sem er einn af þungavigarmönnum flokksins í Reykjavík eftir glæsilegan sigur í prófkjöri flokksins sl. haust.
Einnig er sérstakt fagnaðarefni að Sigríður Anna Þórðardóttir muni loks taka við ráðherraembætti eftir að hafa um árabil verið í forystusveit kvenna innan flokksins.
Eins og fjallað var um í ritstjórnarpistli Deiglunnar sl. sunnudag, er Sigríður Anna Þórðardóttir ákaflega vel að ráðherraembætti komin og það er því gleðiefni að það svigrúm sem skapast með fjölgun ráðherra í röðum Sjálfstæðisflokksins verði nýtt til að fela henni aukið hlutverk í forystu hans.
Ef litið er yfir ráðherralið Sjálfstæðisflokksins sem sest inn á ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag, þá munu þar sitja sex karlmenn og engin kona. Um áramótin verða fimm karlmenn og ein kona, og þegar valdaskiptin verða 15. september munu fyrir Sjálfstæðisflokkinn sitja í ríkisstjórn fimm karlar og tvær konur, en ein kona og fjórir karlar fyrir Framsóknarflokkinn.
Það er líka merkilegt að velta fyrir sig áhrifum landsbyggðarkjördæmanna í ríkisstjórninni.
Ljóst er að tvö af þremur landsbyggðarkjördæmum, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi, hafa ekki ráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi fékk slæman skell í kosningunum og það hefur að öllum líkindum kostað kjördæmið ráðherrastól. Ekki er víst að Suðurkjördæmi hefði getað gert kröfu um ráðherra, jafnvel þótt útkoma hefði verið betri þar.
Norðvesturkjördæmið stendur hins vegar geysilega sterkt innan Sjálfstæðisflokksins – þvert ofan í það sem útlit var fyrir í ársbyrjun eftir hatrammt prófkjör og deilur upp frá því. Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi, ólíkt öllum öðrum kjördæmum, hélt sjó í kosningunum og uppsker nú samkvæmt því.
Sturla Böðvarsson verður eini landsbyggðarráðherrann úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Staða hans hefur því styrkst mikið í ljósi kosningaúrslitanna en margir höfðu spáð því fyrir kosningar að hann yrði látinn fjúka. En sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi hafa einnig eignast annan fulltrúa í forystusveit flokksins, því Einar Kristinn Guðfinnsson verður formaður þingflokksins, sem er í raun ávísun á ráðherrasæti í framtíðinni. Þriðji þingmaður flokksins í kjördæminu, Einar Oddur Kristjánsson, verður að öllum líkindum formaður nefndar og áhrif kjördæmisins því gríðarlega mikil við stjórn landsins.
Það er hins vegar athyglisvert að þau kjördæmi sem fóru einna verst út úr kosningunum, þar sem hlutfallslegt tap Sjálfstæðisflokksins var einna mest, Reykjavíkurkjördæmi norður og Suðvesturkjördæmi, munu eiga fimm af sjö ráðherrum flokksins þegar valdaskiptin hafa átt sér stað.
Tvö kjördæmi eiga engan framsóknarráðherra; Reykjavíkurkjördæmi suður og Norðvesturkjördæmi. Þá missir Suðvesturkjördæmið sinn ráðherra þegar Siv Friðleifsdóttir hverfur úr ríkisstjórninni 15. september á næsta ári. Eftir það munu ráðherrar Framsóknarflokksins koma úr þremur kjördæmum af sex; tveir úr Reykjavík norður, tveir úr Norðausturkjördæmi og einn úr Suðurkjördæmi.
Í heild má segja að tilkoma Árna Magnússonar séu stærstu tíðindin, það sem mest kom á óvart við skipan ráðherra. Mestu pólitísku tíðindin eru hins vegar þau að ung kona úr Sjálfstæðisflokknum stimplar sig rækilega inn í forystusveit flokksins með því að taka við ráðherraembætti um áramótin. Þá munu tvær konur ekki áður hafa setið samtímis í ríkisstjórn fyrir flokkinn – það er mikið fagnaðarefni.
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009