Mikið fylgi Frjálslynda flokksins í könnunum hefur vakið athygli en hingað til hefur fátt annað heyrst úr herbúðum flokksins en áköf andstaða við núverandi stjórnkerfi fiskveiða. Þegar stefnir í það að Frjálslyndir gætu orðið þriðji stærsti flokkurinn á þingi og þungavigtarafl við myndun næstu ríkisstjórnar hafa önnur stefnumál flokksins komist í brennidepil.
Í viðtali við Morgunblaðið um liðna helgi lýsir Guðjón Árnar Kristjánsson þeirri einörðu afstöðu flokksins að gera eigi allt landið að einu kjördæmi. Þetta hefur um langa hríð verið eitt helsta baráttumál íslenska sósíaldemókrata og hefur Samfylkingin gert þetta að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir þátttöku sinni í ríkisstjórn að kosningunum loknum.
Það vekur vissulega athygli að Frjálslyndi flokkurinn skuli taka þessa afstöðu. Fylgi flokksins liggur einkum á landsbyggðinni og hefur formaður flokksins slag í slag lýst sjálfum sér og flokki sínum sem verndara hinna dreifðu byggða.
Ljóst má vera vægi landsbyggðarinnar við stjórn landsins kæmi til með minnka mjög verulega ef hugmyndir um eitt kjördæmi fyrir allt landið yrðu að veruleika. Ekki er ætlunin hér að fara nánar út í áhrif slíkrar breytingar, en í öllu falli er hægt að fullyrða að miðstjórnarvaldið myndi færast í auknum mæli til höfuðborgarinnar.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru Frjálslyndir þriðji stærsti flokkur landsins og haldi þeir dampi fram að kosningum er ljóst að þeir geta gert kröfu um sæti í ríkisstjórn. Ósennilegt verður að teljast að Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir næðu saman en við blasir að Frjálslyndir gætu myndað stjórn með Samfylkingu á grundvelli hugmyndafræðilegrar samstöðu, og tekið Vinstri-græna með sér, en VG verður líklega minniháttar smáflokkur að loknum kosningunum.
Vitaskuld eru ekki öll kurl komin til grafar og ýmislegt gæti enn gerst á þeim 17 dögum sem eru fram að kosningum. Hins vegar blasir ekkert annað við í dag en þessi verði niðurstaðan, ekki síst í ljósi þess hvernig Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn virðast nú nálgast hvert annað óðfluga í hverju málinu á fætur öðru – nú síðast í hinu gamla baráttumáli kratanna, að gera landið að einu kjördæmi.
Kosningarnar eru því að taka á sig athyglisverðan blæ, þar sem kjósendur hafa mjög skýra valkosti og mörg grundvallarmál eru mjög svo í brennidepli.
- Einyrkjar undir eftirliti - 11. maí 2009
- Hún fyrnir hann… hún fyrnir hann ekki… hún fyrnir hann… - 7. maí 2009
- Frábærar NBA-nætur - 5. maí 2009