Flestir sem hafa verið eitthvað á ferli í Reykjavík að undanförnu hafa vísast tekið eftir grænmetisauglýsingunum sem prýða strætoskýli borgarinnar. Inntak þessara auglýsinga er að íslenskt grænmeti sé betra.
Þessi frasi hefur alltaf farið í taugarnar á mér þar sem hann er oft notaður til þess að réttlæta tolla og niðurgreiðslur á íslenskt grænmeti. Rökin eru þá eitthvað á þessa leið: Íslenskt grænmeti er betra. Þess vegna er mikilvægt að við reisum tollamúra í kringum það eða niðurgreiðum það. Því annars myndi það vera svo miklu dýrara en erlenda grænmetið að við myndum neyðast til þess að kaupa það erlenda.
Vonandi eru flestir á því að það er eitthvað bogið við þessa röksemdafærslu. Villan hefur að gera með hugtakið „betra“. Þetta hugtak er nefnilega langt frá því að vera ótvírætt. Þegar sagt er að íslenskt grænmeti sé betra er oftast átt við að það bragðist betur. Þetta er hins vegar ófullkominn mælikvarði þegar neytendur eiga í hlut. Neytendur hafa vissulega áhuga á því að grænmeti bragðist vel. En þeir vilja einnig að það sé ódýrt. Þess vegna getur íslenskt grænmeti verið bragðbetra en samt verið verra þar sem það er svo ofboðslega dýrt.
Það er einkennilegt að grænmetisbændur séu að auglýsa að vörur sínar séu betri á sama tíma og þær eru niðurgreiddar stórskostlega. Að mínu mati væri skynsamlegast fyrir þá að breyta auglýsingunum þannig að þær segir að íslenskt grænmeti bragðist betur. Því annars gætu stjórnvöld misskilið auglýsingarnar og haldið að grænmetisbændur þurfi ekki á niðurgreiðslunum að halda.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009