- Gerpla og Selfoss Íslandsmeistarar í hópfimleikum - 13. mars 2007
- Útlitið svart hjá West Ham - 3. mars 2007
- Fátt stöðvar Lakers - 15. nóvember 2003
Sigur Skagamanna á Íslandsmótinu í knattspyrnu kom flestum á óvart en eins og Deiglan hefur áður greint frá, þá er árangur þeirra ekki tilviljun. Áður en tímabilið hófst var ljóst að Skagamönnum var þröngur stakkur sniðinn fjárhagslega. Skagamenn búa hins vegar ekki einungis að góðum efnivið þegar kemur að leikmönnum og stjórnendum liðsins, heldur er aðstaða til knattspyrnuiðkunar á Akranesi ein sú besta á landinu. Á endurreisnarárum félagsins upp úr 1990 var gífurleg áhersla lögð á uppbyggingu æfingasvæðis og er nú svo komið að á svæðinu rúmast ellefu knattspyrnuvellir. Til samanburðar má geta þess að æfingasvæði stórveldisins KR rúmar í mesta lagi tvo knattspyrnuvelli.
Það er kunnara en frá þurfti að segja að fjármagn er af skornum skammti í íslenskri knattspyrnu. Afar mikilvægt er að það fjármagn sem inn í hreyfinguna kemur nýtist með sem allra bestum hætti. Nú fyrir helgina sendi stjórn knattspyrnudeildar KR frá sér ályktun sem beint var til stjórnar KSÍ. Þar er mótmælt ráðagerðum um byggingu skrifstofu- og kennsluhúsnæðis í Laugardal á vegum sambandsins. Er ályktunin svohljóðandi:
Með þessu hittir stjórn knattspyrnudeildar KR naglann á höfuðið. Svo virðist sem stjórn KSÍ hafi á undanförnum árum verið hafin yfir alla gagnrýni þegar að uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu kemur. Menn hafa horft til landsliðsins og metið árangur sambandsins eftir gengi þess. En er ekki kominn tími til að leita ráða til að minnka yfirbyggingu KSÍ, þegar ljóst er að afar lítið fé er til ráðstöfunar. Hafa fjölmiðlar t.a.m. velt því fyrir sér hver skrifstofu- og ferðakostnaður er hjá sambandinu. Það er t.a.m. upplýst að stjórnendur sambandsins dvöldu á einu dýrasta hóteli Kaupmannahafnar í nokkra daga umfram það sem þeir þurftu í tengslum við leik Íslands og Danmerkur.
Hefur íslenska knattspyrnuhreyfingin efni á því mikið lengur, að reka batterí á borð við Knattspyrnusamband Íslands í óbreyttri mynd?