Á seytjándu öld var uppi maður einn er þótti ákaflega ær. Maðurinn hét líklega Þorbjörn en var seinna á lífsleiðinni þekktur undir nafninu Æri-Tobbi. Um þennan mann er í raun ákaflega lítið vitað. Hann gat sér þó gott orð fyrir kveðskap og er allþekktur meðal þjóðarinnar fyrir afrek sín á því sviði.
Líklegt má telja að stórmenni Íslands á sviði skáldskapar, menn eins og Jónas, Hallgrímur, Einar og Davíð, hafi allir sem einn bylt sér við í gröfinni hafi þeir heyrt síðustu setningu formálans hér að ofan. Æri-Tobbi verður nefnilega seint talinn hafa getið sér gott orð fyrir kveðskap. Rétt er að hann var skáld en líklega eru einu afrek hans á því sviði þau að vera eitt fremsta leirskáld þjóðarinnar, fyrr og síðar.
Stíll Æra-Tobba var æði sérstakur, oft notaði hann uppskálduð orð og rímorð í vísum sínum og er rímnaskrýpnið agara gagara talið meðal hans helstu skáldeinkenna. Þrátt fyrir allsérstakan kvæðastíl, orðanotkun og sérstakar rímanir er ákaflega gaman að lesa kveðskap Æra-Tobba. Vísurnar hafa ákveðin húmor, sem erfitt er að henda reiður á, og bera oft merki þess að skáldið hafi verið að ausa úr skálum reiði sinnar í ljóðinu. Þessi ljóð Æra-Tobba sýna glögg merki um þennan kvæðastíl (greinarmerki skvt. heimildum):
Agara gagara úra rá
ég held þið verðið að víkja frá.
Agara gagara úra rum
svo ég nái prestinum.
Loppu hroppu lyppu ver
lastra klastra styður,
Hoppu goppu hippu ver.
hann datt þarna niður.
Um skáldið sjálft er ákaflega lítið vitað. Litlar heimildir er að finna um Æra-Tobba og verk hans. Vísur hans hafa verið skráðar niður úr þjóðsögum og öðru prentuðu máli. Ekki hefur einu sinni verið sýnt fram á með óyggjandi hætti hver Æri-Tobbi var. En Jón frá Pálmholti gerir að því skóna að Æri-Tobbi hafi með réttu heitið Þorbjörn Þórðarson og verið uppi á sautjándu öld. Þorbjörn bjó líklega á Snæfellsnesi e-n hluta ævi sinnar og var í vist á Suðurlandi um tíma. Af ljóðum hans að dæma má ætla að hann hafi fengist m.a. við fiskveiðar og smíðar. Sögur eru einnig um að Æri-Tobbi hafi kveðist á við sjálfan Hallgrím Pétursson og má finna vísur þess efnis í bókinni Vísur Æra Tobba sem Iðunn gaf út árið1972.
Sagan segir að á Snæfellsnesi hafi búið maður að nafni Þorbjörn. Þorbjörn þessi þótti skáldmæltur á sínum yngri árum og var auk þess æringi mikill. Hann átti það til er hann var spurður til vegar að svara með gáska í vísuformi. Oftar en ekki svaraði hann því til, með sínum gáskafulla húmor, er hann var spurður til vegar yfir vötn og ár, að hann vísaði á vað þar sem ófært var með öllu. Sagan segir að hópur manna hafi beðið Þorbjörn að vísa sér til vegar yfir Hausthúsafjörur á Snæfellsnesi og þá hafi hann svarað þeim með eftirfarandi vísu:
Smátt vill ganga smíðið á
í smiðjunni þó ég glamri.
Þið skulið stefna Eldborg á
undan Þórishamri.
Á þessum stað var hins vegar ekkert vað að finna og segir sagan að hópurinn hafi allur drukknað þarna. Eftir þennan atburð er sagt að Þorbjörn hafi orðið ær og ruglaður og ekki getað komið saman vísu sem vit var í. Var hann kallaður Æri-Tobbi upp frá þessu. Þjóðsagan segir enn fremur að þetta hafi verið refsidómur Drottins til Þorbjörns fyrir að hafa vanbrúkað skáldskapargáfuna.
Ekki hefur tekist að sýna fram á með vissu að Æri-Tobbi hafi í raun verið Þorbjörn Þórðarson og Íslendingabók, Íslenskrar Erfðagreiningar og Friðriks Skúlasonar, hefur ekki heimildir um neinn Þorbjörn Þórðarson fæddan á bilinu 1220 til ársins 1761. Að sjálfsögðu eru þó ekki heimildir um alla Íslendinga, lífs og liðna, að finna í þeirri ágætu bók en eflaust rennir þetta stoðum undir það að enn þá hefur enginn fundið út hver Æri-Tobbi í raun og veru var. Æri-Tobbi er engu að síður eitt af áhugaverðari skáldum okkar Íslendinga, ekki fyrir hæfileika sína á því sviði, heldur frekar fyrir kostulegan leirburð og ævi sem virðist þakin mikilli óvissu.
Heimildir: Netið og Vísur Æra-Tobba, Iðunn 1972, Jón frá Pálmholti tók saman
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008