Á árunum 1990-1995 féllu að meðaltali 34 á ári fyrir eigin hendi hér á landi og fátt bendir til þess að meðaltalið hafði breyst mikið. Viðkomandi einstaklingar voru á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum. Minnihluti þeirra þjáðist af alvarlegum geðsjúkdómum, langflestir voru venjulegt fólk sem átti mjög bágt sökum þunglyndis, vímuefnaneyslu, vonleysis eða sálrænna vandamála. Þetta fólk sá líklega enga aðra leið út úr svartnættinu.
Þegar einhverjir þættir í þjóðfélaginu eru farnir að kosta of mörg mannslíf þá er yfirleitt brugðist við. Há tíðni dauðsfalla í umferðinni hefur t.d. kallað á mikil forvarnar- og kynningarátök hjá Umferðarráði, lögreglu og tryggingafélögunum. Öllu minna hefur farið fyrir umræðum og átökum vegna sjálfsvíga. Það vekur furðu því tölur sýna t.d. að á árunum 1980-1990 kostuðu sjálfsvíg okkur fleiri líf en umferðarslys.
Umræðan um sjálfsvíg virðist því miður vera að mestu leyti neðanjarðar og falin. Undantekningarnar eru örfáar skýrslur um málefnið og Samtök gegn sjálfsvígum. Fyrir utan það virðast sjálfsvíg vera tabú sem lítið er fjallað um og fólk virðist helst ekki vilja vita af. Slík meðhöndlun á vandamálinu er varasöm því hún ýtir undir að sjálfsvíg séu feimnismál og eitthvað til að skammast sín fyrir sem grefur alla umræðu enn dýpra.
Þegar einstaklingur deyr af slysförum þá birtist frétt um það í fjölmiðlum og oft vaknar í kjölfarið almenn umfjöllun um orsakir slíkra slysa. Ef um er að ræða sjálfsvíg þá birtist hins vegar ekkert í fjölmiðlum fyrr en í minningargreinum Morgunblaðsins. Að sama skapi er lítil almenn umræða hér á landi um sjálfsvíg og afleiðingar þeirra. Þannig mætti halda af lestri íslenskra fjölmiðla að ekki nokkur sála fremdi sjálfsmorð hér á landi. Það má hiklaust deila um réttmæti fréttaflutnings af sjálfsvígum en flestir hljóta að vera sammála um þörfina á aukinni almennri umræðu um vandamálið.
Það væri til góðs ef vönduð og fagleg umræða um sjálfsvíg kæmist upp á yfirborðið. Umræða og fræðsla um vandamálið er lang besta forvörnin gegn þessum ótímabæru dauðsföllum. Hún myndi t.d. fræða hugsanleg fórnalömb sjálfsvígs um þann gífurlega skaða sem þau valda fjölskyldu og vinum en það er einmitt algeng hugsanavilla hjá fólki með slíkar hvatir að halda að það sé að gera fjölskyldu og vinum greiða með því að fremja sjálfsvíg. Þeir myndu fræðast um meðferðar- og hjálparúrræði og sjá betur að það eru fleiri í þeirra sporum. Opin umræða ásamt reynslu annarra sem hafa lent í því sama myndi jafnframt gagnast aðstandendum fórnarlamba sjálfsvíga til að takast á við missinn og vinna á sjálfsásökunum.
Sjálfsvíg er vandamál í íslensku þjóðfélagi sem tekur svipaðan toll af mannslífum og umferðin. Það er mjög óeðlilegt að við séum jafn sinnulaus gagnvart þessu og raun ber vitni. Opin umræða er lykillinn. Það þarf að rjúfa þögnina og hætta að meðhöndla sjálfsvíg eins og eitthvað feimnismál.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020