Á þessu vefriti hefur áður verið rætt um þá áróðurstækni að láta sem svo að ákveðin niðurstaða sé óhjákvæmileg eða óumflýjanleg. Þannig er orðræða þeirra sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB og í auknum mæli má nú greina þessa tækni hjá fylgjendum eignaupptöku í sjávarútvegi. Dæmi um þennan málfluning er grein eftir Jón Steinsson, hagfræðing, hér á Deiglunni sl. sunnudag. Þar heldur hann því fram að fyrning aflaheimilda sé óhjákvæmileg niðurstaða í fiskveiðistjórnunarmálum og harmar að Sjálfstæðiflokkurinn muni ekki hafa umsjón með þeirri eignaupptöku, vegna þess að líklegt sé að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu klúðra henni. Út af fyrir sig er það hárrétt hjá Jóni að vinstri flokkarnir myndu vafalaust klúðra eignaupptökunni en að honum skuli detta í hug að Sjálfstæðiflokkurinn láti undan þessum þrýstingi er fráleitt.
Eignarétturinn er hornsteinn borgaralegs samfélags og hagnaðarvonin er drifkraftur þess. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka staðið vörð um þessi gildi hér á landi ásamt því að hafa lagt grunninn af velferðarsamfélaginu. Tilraunir andstæðinga flokksins til þess að klekkja á honum byggja gjarnan á því að höfða til óæðri hvata fólks, öfundar, vonleysis og ábyrgðarflótta. Þannig eru einhver helstu rök þjóðnýtingarsinna í sjávarútvegi þau að í upphafi hafi úthlutanir á aflaheimildum ekki verið réttlátar og að ákveðnir einstaklingar hafi grætt peninga á þessari úthlutun. Það er vissulega rétt að aðferðirnar við útdeilingu aflaheimilda voru umdeilanlegar en hafa verður í huga að algjör óvissa ríkti um hversu mikil verðmæti var að tefla. Þannig hefur útgerðarmönnum flestum væntanlega þótt sem þeir væru að gefa töluvert eftir með því að sættast á aflatakmarkanirnar á sínum tíma og hafa ber í huga að sú áhætta sem fólst í óvissu um framtíðarvirði kvótans lá alfarið á útgerðarmönnum. Nú þegar verðmyndun hefur átt sér stað á þessum markaði hafa markaðsviðskipti með kvóta gert útgerðarmönnum kleift að selja sig úr rekstri og öðrum að kaupa sig inn í hann. Þetta er jákvæð og eðlileg þróun þótt einhverjum kunni að svíða í augum þau miklu verðmæti sem fallið hafa í skaut nokkurra einstaklinga.
Verði kvótakerfinu umbylt mun það ekki bitna á þeim sem þegar hafa selt aflaheimildir sínar. Það mun fyrst og fremst bitna á þeim sem nýlega hafa haslað sér völl í atvinnugreininni og lagt út í gríðarlega fjárfestingu. Þannig verður þeim einum refsað sem starfa ötullega að því að auka virði auðlindarinnar og hafa lagt út í áhættufjárfestingar og mikla vinnu í því skyni. Þetta er nú allt réttlætið.
Gjarnan telja menn að réttlæti og hagkvæmni togist á – séu andstæðir pólar. Þetta er mikill misskilningur. Réttlæti og hagkvæmni eru ekki óskyldir hlutir – heldur haldast þeir í hendur. Hagkvæmni er einungis tryggð þegar fólk hefur tækifæri til þess að sjá afrakstur vinnu sinnar og hyggjuvits. Það tel ég vera réttlátt. Óhagkvæmni kemur til þegar smíðuð eru kerfi sem draga úr framleiðslugetu hagkerfisins og þar með möguleikum einstalkinganna til þess að afla sér og sínum lífsviðurværi. Það er að mínu viti óréttlæti. Mesta óréttlætið er þó það þegar ríkisvaldið hrifsar til sín eigur fólks til þess að tryggja sér vinsældir meðal þegnanna – það er nákvæmlega það sem fyrningarleiðarsinnar vilja. Ef stjórnvöld láta eftir þeim kröfum þá má gera ráð fyrir að þjóðnýtingarsinnar verði fljótir að beina sér í aðrar áttir og næsta mál á dagskrá verður þá þjóðnýting einhverrar annarrar atvinnugreinar, t.d. þeirra atvinnugrein sem Vinstri-grænir hafa skilgreint sem „þjónustufyrirtæki“ en ekki „gróðafyrirtæki“ – og hvað fellur ekki undir þá skilgreiningu? Á endanum verður nefnilega hægt að finna rök fyrir því að þjóðnýta allt. Meira að segja Deigluna. Og það má aldrei gerast.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021