Ljóst var að pólska ríkisstjórninn gerði sér miklar vonir um góðan stuðning Páfans. Það sést meðal annars á því að sjálfur Aleksander Kwasniewski forseti var mætti til að hlýða á, auk fjölmenns flokks ráðherra úr stjórninni. Það var því ljóst að ráðamenn töldu að ræðan hefði mikið vægi í umræðunni innanlands.
Pólska stjórnin stendur afar veikt. Síðan Bændaflokkurinn yfirgaf hana eftir áramót hefur Lýðræðislega vinstribandalagið setið í minnihlutastjórn. Hófsamir stjórnarandstöðuflokkar hafa varið stjórnina falli en almennt eru menn sammála um að eini tilgangur þessarar stjórnar sé að koma landinu gegnum þjóðaratkvæðagreiðsluna, að því loknu verður boðað til þingkosninga.
Það er ljóst að Páfinn hefur ekki valdið pólskum Evrópusinnum vonbrigðum. Í lok seinustu ferðar sinnar til Póllands talaði hann aðeins um að „Pólland yrði að finna sinn stað í samfélagi Evrópuþjóða“. Sá staður gæti auðvitað verið Evrópuráðið eða EFTA, enda voru alheimssinnaðir pólskir ESB-andstæðingar fljótir að túlka þetta einmitt á þann veg. Að þessu sinni var Evrópusambandið sem slíkt nefnt beint á nafn:
Þó að orðin séu sterk og Pólverjar flestir kaþólskir þarf alls ekki að vera að orðin muni hafa það mikil áhrif. Sér í lagi er afar ólíklegt að einhverjum hörðum ESB-andstæðingum muni snúast hugur þrátt fyrir að flestir þeirra liggi einmitt á hinum þjóðerniskaþólska væng pólskra stjórnmála. Páfinn hefur jú áður lýst yfir stuðningi við aðild Póllands að ESB, m.a. í pólska þinginu árið 1997 en engu að síður héldu þeir áfram að berjast gegn aðild, þvert á orð hins „óskeikula“ leiðtoga síns. Það hefur verið bent á að pólskir jaðarhægrimenn séu mun meiri þjóðernissinnar en kaþólikkar þó að þeir noti gjarnan trúarleg rök til að ná eyrum fólks.
Það verður síðan forvitnilegt að sjá hve afgerandi afstöðu kirkjan tekur í kosningabaráttunni. Í Litháen hvöttu prestar fólk eindregið á sunnudegi til að mæta á kjörstað og kjósa „já“ og telja sumir að þannig hafi tekist að koma kjörsókninni yfir 50% sem nauðsynlegt var til að kosningin teldist gild. Sömu kröfur eru gerðar til kjörsóknar í Póllandi og í raun virðist það nú vera helsti þröskuldurinn í vegi Pólverja inn í ESB. Í Slóvakíu voru t.d. 92% kjósenda fylgjandi aðild en kjörsóknin var aðeins 52%. Það hefur því verið bent á að það á sinn hátt andstæðingar aðildar sem komu landinu í ESB, með þáttöku sinni í kosningum.
Hvort að boðskapur Páfans muni hafa áhrif á þá Pólverja sem búa hér á landi skal ósagt látið en alla vega geta þeir nú nýtt atkvæðisréttinn með því að skrá sig til kosninga hjá Pólska sendiráðinu í Osló. Heyrst hefur að áhuginn sé mikill enda mun innganga Póllands í ESB hafa veruleg áhrif á réttarstöðu Pólverja á Íslandi, sérstaklega hvað dvalar- og atvinnuleyfi varðar.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021