Skoðana- og tjáningarfrelsi er hér á landi verndað af 73. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með lögum númer 62/1994. Upprunalegt markmið stjórnarskrárákvæða á 18. og 19. öld miðaði að vernd prentfrelsis, afnámi ritskoðunar og málfrelsi. Tjáningarfrelsið er nauðsynleg forsenda hvers lýðræðisþjóðfélags. Auk þess sem í því eru falin mikilvæg einstaklingsréttindi snúa þau ekki síður að þjóðfélagslegum hagsmunum, að vernda frjálsa þjóðfélagsumræðu. Tjáningarfrelsisákvæði þau sem gilda hér á landi innihalda þó víðtækar heimildir til takmarkana, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ástæðan fyrir því er að óskert tjáningarfrelsi er líklegra en önnur réttindi til að skerða réttindi annarra, einkum friðhelgi einkalífsins.
Eitt þeirra skilyrða sem sett eru fyrir takmörkun tjáningarfrelsis er að takmörkunin sé nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Það er það skilyrði sem oftast ræður úrslitum við mat á því hvort takmarkanir ganga of langt. Þar vegast á sjónarmið um mikilvægi frjálsrar umræðu sem undirstöðu lýðræðis og sjónarmið um vernd annarra, einkum æra og mannorð. Við matið er miðað við að takmörkun gangi ekki of langt miðað við það markmið sem henni er ætlað að ná.
Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur komið fram að sérstök sjónarmið gilda um fjölmiðla. Vegna hlutverks fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi þurfa sérstaklega ríkar ástæður að liggja að baki takmörkunum á starfsemi þeirra.
Í 2. mgr. 73. gr. stjskr. er að finna bann við fyrirfram tálmun tjáningar. Sögulegar ástæður eru fyrir banni við ritskoðun vegna reynslu frá tíma einveldisstjórnar. Markmiðið er að banna fyrirfram kerfisbundna skoðun á efni sem á að birta í þeim tilgangi að stöðva óæskilegar skoðanir eða upplýsingar. Ýmis álitaefni geta vaknað í tengslum við þetta ákvæði. Svo sem um skilyrði um leyfi fyrir rekstri útvarps- og sjónvarpsstöðva, Kvikmyndaeftirlit ríkisins og fleira þess háttar. Einnig er í ákvæðinu gerð krafa um að menn geti ábyrgst orð sín fyrir dómi. Miðar það að því að ábyrgð vegna tjáningar skoðana eða upplýsinga verði komið fram eftir á, hafi maður farið út fyrir leyfileg takmörk. Á það líka við um fjölmiðla. Um ástæður sem geta réttlætt takmarkanir er fjallað í 3. mgr. 73. gr. stjskr. Þar eru nefnd allsherjarregla eða öryggi ríkisins, vernd heilsu eða siðgæði manna og réttindi eða mannorð annarra.
Í dag verður haldið málþing á vegum lagadeildar Háskóla Íslands sem ber yfirskriftina Sjálfsritskoðun og réttarvernd fjölmiðla. Framsögumaður verður dr. Herdís Þorgeirsdóttir sem nýlega varði doktorsritgerð sína í lögum um innra frelsi fjölmiðla út frá sjónarhóli mannréttinda. Auk þess munu prófessorar úr lagadeild og ritstóri Morgunblaðsins taka þátt í umræðunni. Eitt að því sem velt verður upp er hvernig lögin geti tryggt það að fjölmiðlarnir geti rækt af heilindum það lögskipaða hlutverk sitt að vera varðhundur almennings gagnvart ríkinu og öðrum valdamiklum öflum í samfélaginu. Í Fréttablaðinu í dag segir Herdís vandann ekki síst vera þann að sjálfsritskoðun blaðamanna geti ekki fyllilega talist lögbrot, jafnvel þótt menn séu sammála um að þar sé eitthvað rangt á ferðinni. Herdís kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu meðal annars að réttarvernd fjölmiðla samkvæmt dómatúlkun Mannréttindadómstóls Evrópu sé í raun mun víðtækari en ætla hefði mátt.
Umræða eins og sú sem lagadeild HÍ stofnar til í dag verður að teljast afar nauðsynleg. Sérstaklega í ljósi þess hve mikið áhrifaafl fjölmiðlar eru orðnir í þjóðfélaginu eins og sýndi sig í aðdraganda nýafstaðinna alþingiskosninga. Eðilegt er að sérsjónarmið gildi um fjölmiðla þegar kemur að tjáningarfrelsi. Hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi er óumdeilt og ekki að ástæðulausu sem þeir eru kallaðir fjórða valdið. Hins vegar er það heldur ekki að ástæðulausu sem ákvæði um tjáningarfrelsi innihalda svo víðtækar heimildir til takmarkana sem raun ber vitni eins og hér að ofan hefur verið rakið. Má líta á það þannig að fjölmiðlum verði líka að veita aðhald eins og öðrum þáttum ríkisvaldsins.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008