Enginn vafi er á því að ofbeldistengdir glæpir hafa orðið meira áberandi hér á Íslandi undanfarin ár. Grófum líkamsárásum, sem virðast tilefnislausar, hefur fjölgað ásamt vopnuðum ránum á hina ýmsu staði. Fikniefnasala og neysla hafa orðið meira áberandi þar sem fréttir af fundi ólöglegra efna berast okkur næstum daglega. Engum dylst það lengur að á Íslandi eru til staðar undirheimar glæpa og ofbeldis.
Hér á landi gilda ákveðin lög um eign og meðferð skotvopna. Sem betur fer er byssueign meðal almennings því takmörkuð og notkun skotvopna við rán og aðra glæpi, því ekki algeng. Flest rán hafa hingað til verið framin í söluturnum og búðum en nú virðast afbrotamenn hins vegar hafa áttað sig á því að mögulegt er að fremja bankarán.
Ránið sem framið var í Sparisjóðnum í Hafnafirði var framið af einum manni, vopnuðum hnífi. Eftir ránið kom fram í fjölmiðlum hvernig það var framið og hversu miklum fjármunum ræninginn náði. Ránið sem framið var í Sparisjóðnum í Kópavogi fyrir helgi var einnig framið af einum manni, vopnuðum hnífi. Það rán var framið á mjög svo keimlíkan hátt og ránið í Hafnafirði. Eftir ránið var einnig gefið upp hversu miklum fjármunum ræninginn náði.
En afhverju kemur það fram í fjölmiðlum hversu miklum fjármunum ræningjarnir ná úr einni gjaldkerastúku? Það hefur ekkert gildi fyrir rannsókn málsins og virðist aðeins hafa það hlutverk að gæða fréttir af málinu meiri spennu. Sú staðreynd að mögulegt er að ná um milljón króna úr einni gjaldkerastúku, með tiltölulega litlu erfiði getur haft þau áhrif að afbrotamenn fari að líta hýru auga til banka og sparisjóða og jafnvel hvatt þá til að láta á það reyna. Þeir geta jú náð mun meiri fjármunum á þann háttinn heldur en með ráni í söluturni.
Kannski ber að líta svo á að alda bankarána sé hafin hér á landi, þar sem tvö rán hafa verið framin á rúmum mánuði. Kannski er það aðeins tilviljun.
- Þú ert það sem þú hugsar - 9. nóvember 2007
- Verða allt sem þú getur - 15. júní 2007
- Hver velur hvað ég borða? - 8. september 2006