Tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Niðurstaða alþingiskosninganna laugardaginn fyrir viku, og aðdragandi þeirra, var um margt þörf áminning fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ljóst er að ákveðnar breytingar þurfa að eiga sér stað til þess að flokkurinn missi ekki forystusæti sitt í íslenskum stjórnmálum.

Niðurstaða alþingiskosninganna laugardaginn fyrir viku, og aðdragandi þeirra, var um margt þörf áminning fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ljóst er að ákveðnar breytingar þurfa að eiga sér stað til þess að flokkurinn missi ekki forystusæti sitt í íslenskum stjórnmálum.

Segja má að fylgistap Sjálfstæðisflokksins megi að miklu leyti skrifa á það að landsmenn hafi verið orðnir þreyttir eftir samfellda tólf ára forystu flokksins í ríkisstjórn. Það er ekki óeðlilegt að sú þreyta hafi komið fram í þessum kosningum og segja má að niðurstaðan hefði getað orðið verri fyrir flokkinn miðað við hvernig straumarnir í þjóðfélaginu hafa verið á síðustu misserum.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði þó nokkru fylgi í flestum kjördæmum en náði þó að halda ágætlega sjó í Norðvesturkjördæmi og náði þolanlegum árangri í Reykjavík Suður og Suðvesturkjördæmi. Sú niðurstaða, að fá 33,7% atkvæða, getur þó vart talist ásættanleg og ljóst er að flokkurinn þarf að huga vel að sínum málum á næstu misserum til þess að tryggja framtíðarmöguleika flokksins til þess að vera leiðandi í íslenskum stjórnmálum.

Slakt fylgi meðal ungs fólks og kvenna

Samkvæmt samanteknum niðurstöðum raðkannanna Gallup var fylgi Sjálfstæðisflokksins minna en Samfylkingarinnar í yngsta aldurshópnum. Í aldurshópnum 18-22 ára, sem löngum hefur verið mjög sterkur hjá Sjálfstæðisflokknum, var Samfylkingin með 34% en Sjálfstæðisflokkurinn 28%. Í aldurshópnum fyrir ofan, 23 – 27 ára var Sjálfstæðisflokkurinn sterkari, með 38% en Samfylkingin 28,6. Í aldurshópnum 28 – 32 ára var Samfylkingin sterkust, með 36% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn með 30,7%.

Þá bentu flestar kannanir til þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal kvenna væri langt undir fylginu meðal karla. Þetta eru upplýsingar sem hljóta að valda flokksmönnum töluverðum áhyggjum (sérstaklega í ljósi þess að þessar tölur eru byggðar á raðkönnun Gallup dagana 6. og 7. maí þegar Sjálfstæðisflokkurinn mældist einna sterkastur).

Mikilvægt að horfa til framtíðar við val á ráðherrum

Nú er allt útlit fyrir að Sjálfstæðisflokkur og Framóknarflokkur endurnýji stjórnarsamstarf sitt. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn noti það tækifæri, sem ríkisstjórnarþátttaka býður, til þess að gefa nýju fólki tækifæri til þess að komast í fremstu röð innan flokksins. Nokkuð hefur verið rætt um það að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé álitlegt ráðherraefni, þrátt fyrir að hún hafi skipað fjórða sæti á framboðslista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Deiglan tekur heilshugar undir þá skoðun. Þorgerður Katrín er ekki aðeins ákaflega öflugur stjórnmálamaður heldur er hún einnig af þeirri kynslóð sem hingað til hefur ekki verið nægilega áberandi í forystu Sjálfstæðisflokksins. Ef flokkurinn gerir hana að ráðherra er ekki einasta verið að gefa einum efnilegasta stjórnmálamanni þjóðarinnar tækifæri til þess að byggja sig upp og öðlast aukna ábyrgð, heldur væri verið að senda skýr skilaboð um að ungar konur eigi möguleika á að ná æðstu metorðum innan stærsta stjórnmálaflokks landsins.

Augljósir hæfileikar og vinsældir Þorgerðar gera hana að afar heppilegum ráðherrakosti og taka má tillit til þess að við uppröðun á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi var ekki viðhaft prófkjör. Hefði Þorgerður Katrín haft færi á að bjóða sig fram í prófkjöri er mjög líklegt að hún hefði lent ofar á framboðslistanum heldur en fjórða sæti.

Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður þingflokksins, myndi að sama skapi sóma sér vel sem ráðherra. Hún hefur verið lengi í forystusveit flokksins og staðið sig með mikilli prýði. Hún hefur gegnt afar vandasömu embætti formanns þingflokksins af miklum myndugleik. En Sigríður Anna kemur úr sama kjördæmi og Þorgerður Katrín og er þar ofar á lista. Afar ósennilegt er að Suðvesturkjördæmi fái þrjá ráðherra í sinn hlut. Það má því segja að valið standi á milli þeirra Sigríðar Önnu og Þorgerðar Katrínar – ef á annað borð taka á inn nýja konu í ríkisstjórnina.

Upplagt tækifæri

Að mati Deiglunnar væri það hyggilegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn að velja Þorgerði Katrínu, einkum og sér í lagi vegna þess að flokkurinn hefur ekki oft haft tækifæri til að gera unga og öfluga konu að ráðherra. Slík ráðstöfun myndi líka styrkja forystusveit flokksins til lengri tíma litið. Með þessu er á engan hátt verið að gera lítið úr hæfileikum Sigríðar Önnu, en út frá hagsmunum flokksins til lengri tíma, skipan forystusveitar til framtíðar, er Þorgerður Katrín betri kostur.

Af öðrum nýjum ráðherraefnum má nefna Einar Kristinn Guðfinnsson úr Norðvesturkjördæmi, en hann fékk mikinn og víðtækan stuðning í prófkjöri flokksins sem haldið var sl. haust. Ekki var sjálfgefið fyrir kosningarnar að þetta nýja kjördæmi fengi ráðherra í sinn hlut en í ljósi þess hversu góð útkoma flokksins var í kjördæminu, þar sem hann tapaði örlitlu fylgi frá því í kosningunum fyrir fjórum árum, verður erfitt að ganga fram hjá þessu kjördæmi við val á ráðherra.

En það er í fleiri málum en skipan ráðherra sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hugsa til framtíðar. Mikil endurnýjun hefur orðið í þingflokknum og ungir menn nú framarlega í flokki. Nú er því lag að fela mönnum á borð við Guðlaug Þór Þórðarson ábyrgðarhlutverk, hugsanlega formennsku í nefnd, í því augnamiði að styrkja forystusveitina til framtíðar.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur á ákveðnum tímamótum. Ef allt gengur upp verður hann búinn að vera sextán ár í ríkisstjórn þegar gengið verður til kosninga eftir fjögur ár. Þá skiptir miklu máli að ákveðin endurnýjun hafi þegar átt sér stað og við ráðherravalið nú er því þörf á að taka mið af því hvernig forystusveitin eigi að líta út eftir fjögur ár.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)