Þann fyrsta október síðastliðinn tók formlega til starfa nýtt fyrirtæki á farsímamarkaði, Sony Ericsson, en fyrirtækið er sprottið upp úr samruna farsímadeilda Sony og Ericsson. Þrátt fyrir ungan aldur er fyritækið ekki á flæðiskeri statt því að jafnan er stórt um, þá stórir ríða. Ungviðið fær það í arf að vera næst stærsta farsímafyrirtæki í heimi, veita 3.500 manns atvinnu og líklega velta u.þ.b. 720 milljörðum króna á ári.
Tímasetning þessa samruna er ekki tilviljun. Bæði fyrirtækin hafa verið að vandræðast með farsímadeildir sínar og róttækra aðgerða var þörf. Ericsson hefur verið að tapa stórum fjárhæðum á sölu farsíma og Sony hafa aldrei náð sannfærandi útbreiðslu á farsímamarkaði. Markmiðið með þessum samruna er því að snúa tapi í hagnað og mynda nógu stóra einingu til að hafa roð í forystusauðinn Nokia. Ericsson hefur tilynnt að stefnt væri að hagnaði frá fyrsta degi en það verður ekki auðvelt og gæti tekið lengri tíma en menn eru að vonast eftir.
Þrátt fyrir að Ericsson hafi verið næst á eftir Nokia í markaðshlutdeild voru þær raddir að gerst æ háværari að Ericsson hefði tapað tengslum sínum við viðskiptavinin í hönnun á farsímum. Eflaust er það orðum aukið en ljóst er að Ericsson var ekki að standast Nokia snúninginn sem hefur náð að breyta farsímum úr tæknifyrirbrigði í tískufyrirbrigði. Því var borðleggjandi fyrir sænsku farsímatröllin að leita á náðir Sony sem hefur margasannað sig á raftækjamarkaði með vörum eins og Playstation, Walkman og stafrænum myndavélum og fá þá til þess að taka að sér hönnun á næstu kynslóð farsíma.
Frá sjónarhóli Sony er þessi samruni skynsamlegur um margt því farsímar fyrirtækisins hafa frekar takmarkaða útbreiðslu. Sony mistókst að koma farsímum sínum inn á Bandaríkjamarkað á sínum tíma en fær nú annað tækifæri í gegnum hið nýja vörumerki, Sony Ericsson. Sony menn líta væntanlega einnig hýru auga til þriðju eða fjórðu kynslóðar farsíma því hún mun bjóða upp á fullkomnar hljóð- og myndsendingar, nokkuð sem Sony starfsmenn eru sérfræðingar í, og þar með auka tækifæri annarra deilda innan Sony.
Höfuðstöðvar fyrirtækisins verða í London og mun fyrirtækið alfarið sjá um allar rekstraeiningar utan framleiðsluna. Sony mun halda eftir sínum framleiðslueiningum og Ericsson heldur áfram samstarfi sínu við Flextronincs, sem framleitt hefur Ericsson farsímana. Eignarskipting hins nýja fyrirtækis er 50/50 sem kemur bersýnilega í ljós við skipan í æðstu stöður, Ericsson fær stjórnarformanninn og Sony forstjórann. Það er hætt við að þessi “einfaldleiki” og það að fyrirtækin ætli að halda eftir framleiðslueiningunum vekji ákveðnar efasemdir um stjórnun fyrirtækisins. Stundum er sagt að sameign geri tíðum sundurþykki og koma verður í ljós hvort það eigi við í þessu tilfelli.
Í kjölfar sameiningar farsímadeilda Sony og Ericsson hefur heyrst orðrómur um að aðrir þátttakendur á markaði séu farnir að tala saman. Næst á eftir Nokia og Ericsson í markaðshlutdeild koma Motorola og Siemens sem nú eru sögð í einhvers konar sameiningarviðræðum. Ekki er hægt að segja til um ávöxt þeirra viðræðna á þessu stigi en ljóst er að fyrirtækin þurfa að grípa til einhverra aðgerða ef þau vilja ekki heltast úr lestinni. En hvað sem öðru líður er farsímarisinn Sony Ericsson tekinn til starfa og farinn að markaðssetja gamla farsíma undir nýju nafni og nýjar vörur eru væntanlegar á seinni helmingi næsta árs. handPoint
- Af lumbrum og lymjum - 13. júní 2009
- Lausn VG er að slíta samstarfinu við AGS ! - 24. janúar 2009
- Skynsemin verður að þola grjótkastið - 23. janúar 2009