Samkeppniskúgun

Samtök verslunarinnar sendu á síðasta ári inn erindi til Samkeppnisstofnunar um að teknir yrðu til athugunar viðskiptahættir varðandi dreifingu og smásölu á ís. Þrátt fyrir að ekkert ólögmætt samráð hafi verið fyrir hendi þá úrskurðaði Samkeppnisráð á athyglisverðan hátt í málinu. Eru samkeppnisyfirvöld á réttri leið eða á villigötum?

Samtök verslunarinnar sendu á síðasta ári inn erindi til Samkeppnisstofnunar um að teknir yrðu til athugunar viðskiptahættir varðandi dreifingu og smásölu á ís. Töldu samtökin að fyrirtækin Emmessís og Kjörís annars vegar og Baugur og Kaupás hins vegar hefðu brotið gegn samkeppnislögum með því að gera með sér samninga, sem fólu í sér að Emmessís og Kjörís höfðu nánast allt hillurými fyrir ís í verslunum Baugs og Kaupáss. Í erindi Samtaka verslunarinnar er minnst á „þrálátan“ orðróm sem átti að styðja þessar ásakanir. Í erindinu kom fram að þessir samningar fælu m.a. í sér að nýir framleiðendur og innflytjendur á erlendum ís væru útilokaðir frá viðskiptum við keðjurnar.

Samkepppnisráð komst nýlega að þeirri niðurstöðu í mjög löngu máli að þrátt fyrir að orðrómur um samráð ætti ekki við rök að styðjast þá takmörkuðu samningar fyrirtækjanna Baugs og Kaupáss við ísframleiðendurna Kjörís og Emmessís möguleika annarra fyrirtækja sem dreifa ísvörum í heildsölu á að bjóða umræddum verslunum ísvörur til kaups. Beindi samkeppnisráð þeim fyrirmælum til Baugs og Kaupáss að við gerð viðskiptasamninga við Kjörís og Emmessís verði samanlagt að hámarki ekki ráðstafað meira en 80% af frystirými fyrir ís í stórmörkuðunum.

Það er athyglisvert að Samkeppnisráð skuli vera farið að ráðstafa hilluplássi í stórmörkuðum og stjórna vöruframboði. Í álitinu kemur fram að Kjörís og Emmesís hafa 90%-95% markaðshlutdeild hér á landi en stórmörkuðunum er hins vegar bannað skv. fyrirmælunum að ráðstafa meira en 80% af hillurýminu undir ísinn. Þetta þýðir að samkeppnisyfirvöld eru búin að veita innflytjendum á erlendum ís veruleg viðskiptatækifæri því stórmarkaðarnir eru núna skyldugir til að taka inn mun meira af ís frá viðkomandi innflytjendum heldur en markaðshlutdeild viðkomandi ístegunda segir til um. Með öðrum orðum þá verða þeir að taka inn í verslanir sínar mun meiri innfluttan erlendan ís heldur en er núna að seljast!

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hillur og rými verslana eru ekki sameign þjóðarinnar. Heildsalar eða framleiðendur eiga engan „rétt“ til að komast með vörur sínar inn í verslanir eða til nokkurs annars sem gengur framar vilja verslunareiganda. Ef verslunarkeðjur geta kýlt niður verð með stórum samningum í krafti yfirburðarstöðu á markaðnum og með stórum samningum þá kemur það sér vel fyrir neytendur svo framarlega sem verslarkeðjurnar fleyti hagkvæmninni út í vöruverðið. Hins vegar liggur ekkert fyrir sem bendir til þess að bann við slíkum hagkvæmissamningum muni gagnast neytendum á nokkurn hátt.

Með göfug markmið að leiðarljósi og gífurlegar valdheimildir hafa samkeppisyfirvöld orðið á stuttum tíma stór áhrifavaldur í íslensku viðskiptalífi. Miklum völdum fylgir ábyrgð en eftir því sem áhrif stofnunarinnar hafa aukist þá hafa því miður komið fram sífellt stærri brestir í göfugleika stofnunarinnar og hún hefur ítrekað lent á gráu svæði í aðgerðum sínum. Sem dæmi má nefna að stofnunin hefur fengið orð á sig fyrir algjört virðingarleysi fyrir friðhelgi einkalífs starfsmanna fyrirtækja sem sæta rannsókn. Stofnunin leggur iðulega hald á mörg hundruð þúsund tölvupósta í innrásum sínum inn í fyrirtæki og skiptir engu máli hvort um er að ræða pósta forstjórans eða ræstitæknanna. Það er líklegt að nýjasti úrskurðurinn sé af þessum meiði enda ólíklegt að löggjafinn hafi ætlað samkeppnisyfirvöldum að raða í hillur stórmarkaða eða skylda verslanir til að hafa til sölu mun meira af vörutegund en hefur til þessa selst af henni.

Það eru til ein önnur samtök sem eru þekkt fyrir að neyða menn til að hafa á boðstólnum eitthvað sem selst ekki. Það er mafían. Það er nefnilega ekki vernd heldur kúgun að neyða verslunareigendur til að kaupa vörutegund gegn vilja sínum á kostnað annarra tegunda. Þetta eru alveg jafn ólögleg afskipti af frjálsum markaði og ólögmætt samráð fyrirtækja. Eini munurinn er að samkeppnisyfirvöld þurfa aldrei að óttast að neinn eftirlitsaðili komi og dragi þá til ábyrgðar.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.