Pistlahöfundur gerði sér ekki grein fyrir því fyrr en farið var að afla gagna fyrir þennan pistil að framkvæmd kosninga í níundu kjördeild í Ráðhúsi Reykjavíkur var áfátt. Í kjörklefanum var eitt ágætisritblý. Samkvæmt lögum skulu hins vegar vera á borðinu ekki færri en tvö venjuleg dökk ritblý, og þau skulu vera vel ydd.
Ýmislegt fleira stendur í lögunum sem hinn almenni kjósandi veltir ekki fyrir sér. Fæstum dytti til dæmis í hug annað en að gæta þess vel og vandlega að enginn sjái nú hvar var merkt. Það eru samt væntanlega ekki allir sem hafa gert sér grein fyrir því að ef einhver sér á kjörseðilinn er hann ógildur, og kjörstjórnarmönnum ber að koma í veg fyrir að kjósandinn geti sett hann í kjörkassann.
Ef seðillinn kemst í kjörkassann gerist fátt þar til hann er tekinn upp aftur, en þá þarf að úrskurða um hvort hann sé löglegur. Ýmsir vilja segja hug sinn eða yrkja. Í lögum segir ekkert um gildi atkvæða með slíku ítarefni, einungis að „Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögum þessum.“ Í leiðbeiningum kemur fram að slíkar merkingar geti valdið ógildingu. Fæstir taka sénsinn á slíku og forðast óhóflegt krot.
Eitt af því sem „allir vita“ að veldur ógildingu er að hreyfa við listum annarra flokka en þeim sem kjósandinn velur. Þetta er klárlega bannað samkvæmt lögunum, en þau eru þó ekki skýr hvað varðar viðurlög, þ.e. hvort slíkar útstrikanir ógildi seðilinn.
Það er semsagt ýmislegt sem er bannað, og leiðir sumt til þess að atkvæðið ógildist á meðan annað sleppur fyrir horn. Kjósandinn veit ekki sérstaklega vel hversu líklegt er klaufaskapur ógildi seðilinn og er því líklegur til að passa sig. Það er ágætt, en veldur hugsanlega óhóflegum ótta við að nýta atkvæðið til fullnustu, þ.e. að strika út frambjóðendur af listanum sem kjósandinn velur.
Pistlahöfundur veit af þónokkrum kjósendum sem hikuðu við að breyta listanum á kjörseðlinum af ótta við að ógilda seðilinn. Það er auðvitað mjög þægilegt fyrir talningamenn, þar sem þetta dregur úr fjölda útsrikana og endurraðana, en ekki æskilegt fyrir niðurstöður kosninganna. Það er reyndar ekki erfitt að finna reglur um það hvernig skuli staðið að útstrikunum, það stendur í lögunum, sem og í leiðbeiningum til kjósenda. En nákvæmlega hvaða áhrif það hefur er talsvert erfiðara að komast að raun um.
Í raun má gera langa sögu stutta og segja að þær hafi engin áhrif. Magnið er umtalsvert meira en svo að þeir sem bæði vilja og þora að strika út nái upp í það mark. Sem er miður, því markmið þessa ákvæðis er að auka vald kjósenda. Fyrr í vetur birtist hér á Deiglunni pistill um Beint kjör alþingismanna, sem leið til að gera fólki auðveldara að kjósa um einstök málefni og eins til að koma í veg fyrir óhóflegan flokksaga.
Sú leið sem þar var sett fram var nokkuð róttæk og ósennilegt að hún rati í lög á næstunni. En stórt skref í rétta átt væri að upplýsa kjósendur rækilega um fyrirkomulag og reglur varðandi útstrikanir, svo þeir þori þó að nýta sér þann rétt sem þeir hafa, til hins ítrasta.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020