Verðhækkun á mjólk hefur verið í umræðunni síðustu daga og menn ekki á eitt sáttir. Sérstaklega er umdeilt að verðið sé ákveðið af nefnd en ekki eftir lögmálum markaðarins eins og flestar aðrar vörur. Ástæðan er fyrst og fremst hið sérstaka kerfi sem landbúnaðurinn býr við. Þegar við kaupum mjólk úti í búð erum við nefnilega ekki bara að kaupa mjólk, heldur er fjölmargt annað innifalið. Meðal annars erum við að tryggja með þessu kerfi að sveitir landsins haldist í byggð og að hér á landi verði um aldur og ævi framleidd mjólk og aðrar landbúnaðarvörur.
Það er svolítið sérstakt að þrátt fyrir þetta gulltryggingarkerfi virðast bændur lifa undir fátæktarmörkum og á engu nema eigin framleiðslu og vera þarna niðurkomnir vegna hugsjóna sinna um að reka bú. Það virðist líka vera nokkuð erfitt að komast út úr þessu kerfi og snúa sér að öðrum störfum þar sem það kallar á búferlaflutninga eða fjárfestingar til að hefja annars konar rekstur. Að því leyti minnir þetta á byggðastefnuna Gulag sem Sovétmenn ráku á sínum tíma til að halda sveitum Síberíu í byggð með að senda hugsjóna- og ógæfumenn til lengri eða skemmri tíma til búsetu í litlum þorpum og bæjum.
Þótt mjólkurlítrinn hækki um 5 krónur út úr búð þurfa skattgreiðendur aukalega að greiða um 200 milljónir til mjólkurframleiðenda þar sem Hagstofan og sexmannanefnd hafa ákveðið að það sé í takt við aukinn rekstrarkostnað. Líklega er þetta gert svona til að þeir sem hafa mjólkuróþol geti líka tekið þátt í verkefninu um að halda bændunum úr borginni, því þeir hafa jú flestir notið góðs af mjólk sem börn og munu eflaust gefa sínum börnum mjólk líka. Og svo eru náttúrulega einhverjir sem kaupa ekki mjólk af því þeir halda að hún sé vond, þið sleppið ekki heldur því mjólk ER góð!
Það að tryggja að mjólkurframleiðsla sé til staðar í landinu er nokkuð sem við þurfum að gera upp við okkur hvort við viljum. Það að segja í sömu andránni að þetta sé til að tryggja aðgang landans að mjólk og að öll önnur ríki í Evrópu beiti sama kerfi er augljóslega þversögn, því auðvelt væri að metta íslenska markaðinn með nokkrum afgangslítrum sem annars væri hellt niður annars staðar. Ef flutningar til og frá landinu leggjast af væri hugsanlega ágætt að hafa hér nokkrar kýr, en líklega myndi þorri þjóðarinnar þó farast úr fráhvarfseinkennum frá koffíni og tóbaki frekar en beinþynningu.
Einu rökin sem eru þess virði að ræða með og á móti því að opna Ísland algjörlega fyrir landbúnaðarafurðum fjalla um smithættu á búfjársjúkdómum og úr landbúnaðarafurðum í menn. Við þurfum að setjast niður og ræða það af alvöru hvort við viljum hafa menn í útlegð í sveitum landsins og pína þá til að framleiða fyrir okkur mjólk og kjöt með óhagkvæmum hætti eða hvort við viljum láta markaðslögmálið ráða ferðinni.
- Línuleg menntun er liðin tíð - 31. mars 2021
- Afstæði á tímum Covid - 25. febrúar 2021
- Auður og afl og hús og verðtrygging - 30. janúar 2021