Kosningabaráttan, sem nú er yfirstaðin, hefur verið bæði snörp og á köflum óvægin. Í henni hafa kjósendur hins vegar fengið gott tækifæri til þess að vega og meta þá kosti sem til boða eru, enda hefur magn upplýsinga sem stendur almennum kjósendum til boða sennilegast aldrei verið meira. Bæklinga- og auglýsingaflóðið hefur verið slíkt og þvílíkt að flestir eru vafalaust komnir með yfrið nóg af brenni fyrir arinelda næstu ára.
En kosningabaráttan hefur, þrátt fyrir offramboð upplýsinga, vonandi komið þeim skilaboðum til flestra landsmanna að það er kosið um grundvallaratriði í íslensku samfélagi í dag. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú leitt ríkisstjórn í tólf ár samfleytt undir öruggri forystu Davíðs Oddssonar. Á þessum tíma er óhætt að segja að Ísland hafi tekið stakkaskiptum – tekið mörg og stór heillaskref til framtíðar.
Frelsi á mörkuðum jafnt sem frelsi einstaklingsins hefur stóraukist og þarf ekki gamla menn til þess að vitna um þau stakkaskipti sem þetta hefur haft í för með sér. Í dag á fólk auðveldara en nokkru sinni fyrr með að sækja sér menntun, stofna fyrirtæki og eignast eigið húsnæði. Þessi árangur hefur ekki náðst fyrir tilviljun – heldur er hann afrakstur einbeittrar stjórnarstefnu sem byggist á vel ígrunduðum og heilbrigðum stjórnmálaskoðunum og lífsviðhorfum.
Einkavæðing síðustu ára er vitaskuld eitt skýrasta dæmið um hvernig góð stjórnmálastefna skilar sér í framkvæmd. Og hvernig sem kosningarnar í dag fara þá getum við verið nokkuð viss um að gömlu ríkisfyrirtækin, sem nú keppa á frjálsum markaði, verða ekki ríkisvædd aftur. Hinn varanlegi árangur stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins mun því standa um ókomna tíð.
Deiglan hvetur lesendur sína til þess að vanda val sitt og láta ekki dægurhugdettur og skyndiloforð stjórnmálamanna glepja sig heldur kjósa þá sem hafa látið verkin tala. Þeir eiga skilið endurnýjað umboð til áframhaldandi framfara og Ísland má ekki hverfa af þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Deiglan hvetur lesendur sína til þess að styðja Sjálfstæðisflokkinn og setja X við D í góða veðrinu í dag.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008